Monday, May 31, 2010

Vika 21: Stuttur jakki og útiborðið mitt

Ég á eiginlega engan sumarjakka eða svona stuttan jakka. Fyrir nokkrum árum saumaði ég mér kápu sem ég notaði nokkrum sinnum. Síðan hefur hún hangið á herðatré inni í skáp og ég hef alltaf verið að spá í hvað ég ætti að gera við hana. Lausnin kom í þessari viku. Ég stytti kápuna, tók kragann af og úr varð skemmtilegur jakki sem ég á pottþétt eftir að nota :)

Svona leit kápan út:


Svona lítur jakkinn út:


Smá díteils:


Fylgihluturinn minn þessa vikuna á eftir að fylgja mér í allt sumar og tjah bara öll sumur hér eftir. Mér áskotnaðist járngrind undan borði og ákvað að smíða ofan á það borðplötu sem ég endaði svo á að bera á viðarvörn. Borðið verður notað til að umpotta plöntum, undirbúa grillmatinn og bara allt það sem hugurinn girnist á sumrin :). Tuborgkassinn inniheldur jarðaberjaplöntuna sem ég keypti í vor. Hún hefur þegar gefið af sér eitt ber sem yngsti sonurinn fékk að smakka og fannst rosalega gott.

Vika 20: Bleik peysa og ....lakviðgerð...

Í þessari viku breytti ég bleikri peysu sem ég átti. Ég keypti hana fyrir langa löngu í H&M þegar ég bjó í nálægð við þá öðlings verslun. Hef ekki notað hana mjög lengi, hún var hneppt upp í háls, síðerma og náði niður fyrir rass. Þar sem mig vantar alltaf litlar sætar gollur yfir hlírakjóla ákvað ég að breyta þessari og er bara nokkuð sátt :).



Fylgihluturinn þessa vikuna var frekar ómerkilegur. Ég ákvað að nota tímann og laga nokkur göt á svörtu laki sem ég nota í fellihýsið. Lakið er nú sem nýtt og komið á dýnuna í fellihýsinu - tilbúið til notkunar.

Tuesday, May 18, 2010

Vika 19:barnakjóll og blómaband

Í þessari viku saumaði ég barnakjól upp úr peysu sem samstarfskona mín átti. Hún "fílaði" ekki þessa peysu og ég ákvað að breyta henni í kjól sem hún getur gefið barnabarninu sínu :).
Svona leit peysan út áður en ég byrjaði.


Svona lítur kjóllinn út sem litla daman fær.


Bjó til blóm úr afgangi af kjólnum frá því úr síðustu viku. Setti á band og það er hægt að nota sem belti eða skraut á fatnað.

Tuesday, May 11, 2010

Vika 18: blöðrukjóll og blómaspenna

Ó já. Fór í breytingar á flík sem ég var búin að gera áður. Var bara einfaldlega ekki að ganga upp eins og hún var. Ég skipti um efri hluta - notaði glansbolinn sem ég ætlaði alltaf að nota í fyrstu en fann ekki - ehe! Setti helminginn af bolnum neðan á pilsið og úr varð blöðrukjóll....bara nokkuð sátt.


Prjónaði lítið sætt blátt blóm og setti í ömmuspennu :).

Mynd síðar þar sem myndin sem ég tók misheppnaðist....

Monday, May 3, 2010

Vika 17: Röndóttar joggingbuxur og litlir barnaskór

Í þessari viku saumaði ég röndóttar joggingbuxur. Ég saumaði mér einar svartar fyrir rúmu ári síðan og það var bara kominn tími á nýjar.



Fylgihluturinn að þessu sinni voru þessir krúttlegu prjónuðu skór sem ég fann uppskrift af á netinu. Kambgarn (sem ég á enn nóg af) og agalega sætir skór. Þarf að finna einhvern lítinn dreng til að nota skóna :)