Wednesday, April 18, 2012

Oslo þessa dagana

Það er svolítið óraunverulegt að vera íbúi í Osló í dag. Við búum inni í miðri Osló. Nógu nálægt til að geta gengið í miðbæinn en nógu langt í burtu frá þeim stað sem hryðjuverkamaðurinn sprengdi fyrir 9 mánuðum síðan - fer allt eftir því hvernig maður hugsar það - því í raun erum við að tala um einn og sama stað, þ.e. miðbæinn.

Þegar við fluttum hingað fyrir átta og hálfum mánuði síðan var samfélagið í miklu áfalli og undir miklu álagi vegna þessa manns. Skólaárið hjá þeim yngri byrjaði á því að teikna mynd á kort og skrifa fallega kveðju til þeirra sem létust og þeirra sem stóðu eftir sárir og þjáðir. Aðal áhyggjuefni drengsins var þá hvort honum yrði einhvern tíma sleppt, þ.e. hryðjuverkamanninum.
Þessa dagana er ungmennið í prófum í menntaskólanum sínum sem liggur við sömu götu og dómssalurinn. Á hverjum degi horfir hann á vopnaða lögreglumenn/hermenn og aragrúa af fréttamönnum sem standa fyrir utan dómshúsið. Þarna verða þeir næstu 10 vikurnar. Mér finnst þetta mjög óraunverulegt og fyrsta daginn (sl. mánudag) var ég með í maganum allan morguninn þangað til drengurinn kom heim úr fyrsta prófinu. Ég var hrædd um að einhver myndi reyna að sprengja eða skjóta eða hvað veit ég í kringum dómshúsið. Þetta er óraunveruleg staða.

Að öðru leyti er allt við það sama. Ég enn hangandi heima og öll að skríða saman eftir Íslandsferðina (hef að mestu sofið eftir að ég kom heim). Sá yngri er að taka þátt í hæfileikakeppni í skólanum og er kominn áfram í keppninni - þó ekkert okkar sé með á hreinu hvað það þýðir hehe. Hann spilar á fiðluna sína í keppninni og gefur keppendum úr tónlistarbekknum ekkert eftir. Þann 17. maí stendur hann svo fremstur í röðinni sem fánaberi...........hvað annað......það þýðir að hann þarf að mæta klukkan 7 um morguninn eða álíka spennandi. Skrúðganga frá skólanum og svo heilsa kónginum. Ætli kóngurinn bjóði upp á pönnsur í tilefni dagsins?

HÉR er vídeó frá tónleikum fyrir 2 árum eða svo.

Monday, April 16, 2012

Litla íbúðin

Um páskana skelltum við okkur á Slettestrand í Danmörku. Við heimsóttum heimabæinn okkar Aalborg og áttum yndislegan tíma með vinafólki frá Hövik. Það sem klikkaði heldur betur í ferðinni var myndavélin en hún varð eftir heima og því voru engar myndir teknar í sumarbústaðnum.....
Einn daginn skruppum við í Blokhus og þar féll ég kylliflöt fyrir þessum skóm sem fóru að sjálfsögðu með mér heim enda á góðum afslætti - eitt par til og það í minni stærð júhú.

Við komum heim síðla kvölds á páskadag og að morgni annars dags páska skellti ég mér í flugvél með frumburðinum til Íslands. Viðburður vikunnar var að mála og koma honum inn í litla íbúð sem við keyptum í fyrra. Jebb. Í stuttu máli má segja að sjaldan eða aldrei hef ég séð svo mikinn skít og viðbjóð saman kominn á einn stað en í þessari íbúð. En með MIKILLI vinnu á stuttum tíma tókst mér áætlunarverkið. Kom heim í fyrrakvöld dauðþreytt og yfirkeyrð og það er jafnvel understatement!

Fyrsta kvöldið var ég búin að bjóða mér í grillmat og köku hjá L vinkonu minni. Hún klikkaði ekki á fínheitunum frekar en venjulega. Elska að koma til hennar í sætu íbúðina sem er einmitt á næsta horni við  mína.

Annars lítur ungmennaíbúðin nokkurnveginn svona út - nýmáluð og hugguleg.

Stofuglugginn: Það á eftir að mála hann þar sem við erum að
láta skipta um glugga í íbúðinni á næstu 3 vikum.

Lazyboy keyptur á Bland.is - fyrsta húsgagnið inn í íbúðina.

Verkfærin sem ég fékk lánuð hjá sjálfstæðu konunni í fínu
íbúðinni á næsta horni.

Eldhúsið

Baðherbergishurðin


Gangurinn

Herbergið

Helmingur af stofu. Hinn helmingur hefur að geyma
stóran rauðan sófa og Lazyboystól.

Horft úr eldhúsinu fram á gang og á hurðina
inn í þvottahús (sem ég málaði með svartri krítarmálningu).

Eldhúsið

Neyðin kennir naktri...... Rússneska peran í stofunni
fékk perluvafning.

Æi er þetta ekki bara huggulegt?