17 dagar og þá flýg ég ein til Mílanó. Þarf að hanga þar í 10 klukkutíma þangað til restin af gönguhópnum kemur. Jebb. Júní er mættur og ég er að fara í stelpuferðina mína til Toscana. Eins og ég skrifaði í pistli hér í lok síðasta árs þá vissi ég að á þessum tímapunkti myndi ég sjá eftir því að hafa ekki æft fyrir ferðina. Sá tímapunktur er sem sagt kominn. Ég þekki sjálfa mig svooo vel....hehe. Ég er samt tilbúin í hausnum að fara af stað og neibb sé ekki eftir því að hafa ekki æft stíft. Kannski sé ég eftir því á meðan ég er að ganga, en ég er nú ekki að hafa áhyggjur af því núna. Á eftir að redda mér nokkrum hlutum til fararinnar og á pottþétt eftir að sleppa því að kaupa létta gönguskó....af því ég á eftir að gleyma því of lengi og svo bara vúpsí er komið að ferðadegi...hmmmm!
Undanfarnar 3 vikur hef ég verið á glútenlausu fæði. Tilraunaverkefni þar sem ég hef verið að reyna að finna leið til að hætta að vera svona þreytt og illt í öllum liðum og vöðvum. Járnleysið hefur lítið batnað síðan í janúar (þegar ég náði sögulegu lágmarki í járnbúskap) þrátt fyrir að hafa tekið tvöfaldan skammt af járni frá því í janúar. Fyrir viku síðan ákvað ég að minnka járnskammtinn í einfaldan því - jebbs - mér líður miklu betur. Ég er ekki stíf og stirð eftir göngutúrana, get staðið upprétt þegar ég fer á fætur á morgnanna (eða stend upp úr sófanum), get beygt fingur án verkja........ Tilraunin átti að vera til fjögurra vikna og ég er spennt að sjá hvernig heilsan er eftir eina viku (ábyggilega miklu miklu betri). Ég hef jafnvel verið að gæla við að fara út að skokka - en passa mig á að anda djúpt þegar ég fæ þá hugmynd, fá mér kaffisopa og gleyma svo hugmyndinni hahahahaha (vá hvað mér finnst leiðinlegt að hlaupa). En fyrir þá sem eru núna orðnir grænir af öfund af því þeir halda að ég sé orðin 1.74 og 90-60-90 þá geta þeir sömu andað léttar. Eins og áður hefur ekkert gramm ákveðið að yfirgefa minn frábæra líkama þrátt fyrir þessa skemmtilegu tilraun. Hinsvegar er ég pottþétt hrikalega holl að innan - allavega í smáþörmunum - því þeir eru farnir að taka járnið meira inn í systemið en áður - júhú.
En varðandi glútendæmið - það er glúten í öllu, eða þannig. Ekki vissi ég að það væri hægt að kaupa glútenlaust mjöl (hveiti) og glútenlaust pasta.....svei mér þá - það er bara allt til. Þar sem synirnir eru alltaf frekar skeptískir þegar kemur að matar- og kökugerð heimilisins (finnst þetta aðeins of hollt) og kalla allt speltmat (mjög hallærislegt að vera með speltmat - þó það sé ekkert spelti í matnum hehe) - þá eru þeir núna illa haldnir af því að allt verði glútenlaust á heimilinu (án þess að vita almennilega hvað glúten er).... Þessi blessuð börn.
Er annars alltaf að detta á skemmtilegar uppskriftir og í gær bjó ég til bountynammi sem fer beint í flokkinn með hrásnickerskökunni - namminamm. Uppskriftina fékk ég hér og nafna mín hún Elin er svo sannarlega með fullt af góðum og skemmtilega hollum uppskriftum.
Kakósmjör, lukuma, kakó, vanilla.
Kókosmjöl, sukrinmelis og kókosmjólk.
Ég átti afgang af súkkulaðinu og hellti því í konfektform og bætti
einni heslihnetu í hvert hólf.
No comments:
Post a Comment