Brómber og hindber í Danmörku
Mánudagur í ræktinni: Mætti í íþróttaskónum og las á stórt skilti sem tilkynnti að það mætti ekki nota útiskó inni.....læddist inn á skónum.
Þriðjudagur í ræktinni: Mætti í rauðu froskaskónum og skildi þá eftir frammi á gangi. Fór inn og reimaði sigursæl á mig íþróttaskóna (þá sömu og í gær). Þegar ég var á leið út hélt ég á símanum og vatnsflösku. Þurfti að beygja mig til að fara úr íþróttaskónum og í leiðinni helltist úr vatnsflöskunni ofan í skó á ganginum. Ekki mína skó.......heldur hvíta Converse skó sem einhver gaurinn á. Mér varð svo mikið um að ég hélt áfram að hella í skóna og þegar ég fór út var hálf sundlaug í öðrum hvíta skónum.....
Miðvikudagur í ræktinni: Mætti í rauðu froskaskónum og skildi þá eftir frammi á gangi. Fór inn og reimaði á mig sömu íþróttaskó og áður. Fór í lóðasalinn þar sem steratröllin eru og hóf mínar æfingar. Fannst vera horft aðeins of mikið á mig og hélt ég væri að gera einhverja tóma vitleysu. Leit þá í fyrsta skipti í spegil.....get alveg lofað því að H&M íþróttabrjóstahaldarinn og bleiki adidas þurrsmartbolurinn eru GEGNSÆ. Lauk mínum æfingum með geirvörturnar út um allt og rauk heim á íþróttaskónum. Þurfti að mæta aftur í ræktina tæpum klukkutíma síðar til að ná í rauðu froskaskóna....þegar ég mundi eftir því að ég hafði jú mætt í þeim.
Rauðu froskaskórnir
Og í dag lauk máli mínu við ferðaskrifstofu IE. Ég á sem sagt rétt á bótum fyrir þá ósvífni þeirra að skila mér og syninum ekki á réttan stað eins og ég segi frá m.a. hér. Nú þarf ég sjálf að fara fram á það við IE að þeir borgi mér skaðabætur - og þá ætlast ég til að þeir greiði syni mínum líka bætur. Verður gaman að sjá hvernig það fer allt saman. En skaðabæturnar eru 400 evrur skv. lögum Flugmálastjórnar. Fékk sendan email rétt áðan með úrskurði Flugmálastjórnar og hoppaði og klappaði eins og mér einni er lagið :)
P.s. Datt í hug rétt í þessu að kannski hafi þetta verið gaurinn sem átti hvítu Converse skóna sem glápti svona á mig í ræktinni.........
1 comment:
Mér finnst þú standa þig vel í ræktinni, flott hjá þér að kaupa kort OG mæta á staðinn. Það er meira en ég myndi gera.
Kveðja frá frú G
Post a Comment