Helgin var skemmtileg. Við slógum upp partýstemmingu á laugardaginn með þriggja tíma fyrirvara. Unglingarnir skelltu sér í bíó um kvöldið og skemmtu sér mjög vel. Á sunnudag fórum við upp á Sognsvann til að prófa gönguskíðin. Ég hef aldrei stigið á slíkt fyrirbæri áður og var sæmilega spennt fyrir viðburðinum. Ástæðan var aðallega sú að á miðvikudagskvöld erum við skráð á örnámskeið í skíðagöngu. Útiveran var fín, frábært að prófa gönguskíðin og ég hvergi nærri því hætt.....nema kannski í augnablikinu þar sem mér tókst að taka teiknimyndafígúrufall á þetta og lenti á rófubeininu og engu öðru - fætur og alltof löng skíðin upp í loft og púmm beint á rófubeinið. Finn hvergi annarsstaðar til - ekki einu sinni með örlítinn marblett....neibb tók þetta alla leið takk fyrir. Ég hef því afboðað komu mína á örnámskeiðið í skíðagöngu og sendi eiginmanninn einan á staðinn annað kvöld. Sjálf á ég fullt í fangi með að sitja, liggja, ganga og allt þar á milli. Bestu vinir mínir eru Hr. Íbúfen og Dr. Voltarol og svo vaknaði Fröken Bjúgur með mér í dag.....hún er eiginlega langbesti vinur minn í dag....ehemmm!
Snjórinn hefur verið að heimsækja okkur hérna inni í miðborginni undanfarinn sólarhring. Ekki leiðinlegt það.
Annars er ég á fullu að prófarkalesa bókina. Gengur súper vel enda eðalfólk búið að senda mér ábendingar um hvað mætti betur fara. Markmiðið er að koma bókinni í prentun í janúar. Panta eitt þúsund bækur og hef ekki grænan grun hvar ég á að koma þeim fyrir á meðan þær eru ekki seldar! Ég þarf svo að fara til Íslands og pranga verkinu inn á fólk en ég hef svona verið að skoða það hvenær ég hafi tíma til að fara - er ekki alveg að sjá það gerast miðað við útstáelsið á heimilisfólkinu.....það er þarna ein vika kannski!
No comments:
Post a Comment