Á föstudaginn gerðum við næstum það ómögulega. Mæli ekki með þessu - en þetta var eina lausnin sem var í boði á þessum tíma. Við hjónin fórum á fætur eins og venjulega rétt fyrir klukkan sjö á föstudag og eiginmaðurinn skellti sér í vinnuna á einn fund. Ég smurði nesti fyrir skóladrengina, eins og venjulega og undirbjó ferðina löngu. Klukkan 11 lögðum við akandi af stað til Kaupmannahafnar. Lentum í Field's í Bilka 17:45. Rétt fyrir klukkan 20 vorum við mætt á Kagså kollegíið. Fengum dýrindis heimabakaða gúmmelaði pizzu hjá hundapössunarkonunni og kæró. Klukkan 21:22 vorum við lögð af stað til baka til Osló. Lögðum bílnum í götunni okkar rétt um klukkan 4 aðfararnótt laugardags. Takk fyrir og sæll. Á gamals aldri tekur það tvo sólarhringa að jafna sig á svona ferðalagi.....þó það sé ekki nema að jafna sig á Bilkaferðinni ;). Elsku hundapössunarkona - þú ert falleg að innan sem utan - við elskum þig öll.
Þessi hérna er ekki alveg viss hvað honum finnst um þetta allt saman. Hann geltir á brunaboðann sem blikkar rauðu ljósi. Hann geltir á viftuspaðann í loftinu, þennan sem dreifir hitanum úr kamínunni fyrir okkur. Hann geltir á hundana sem hann sér úti á röltinu. Hann hrekkur við þegar strákarnir hlæja. Jebb, hann er ekki alveg að átta sig á þessu norska lífi......eftir rólyndis lífið á kollegíinu.
Skellti í einn aðventukrans í vikunni. Fékk þessi fínu spjöld með ROM123 sem ég er áskrifandi að. Og þá var búið að redda kransinum í ár.
Yngsti sonurinn skellti í lakkrískurlkökur. Búið að bíða eftir því að geta bakað þær síðan í haust. Mamman var svo hugulsöm að henda tveimur pokum af lakkrískurli í bílinn á leiðinni með hann í gám. Mömmunni finnst þetta ekkert sérstakar kökur en veit að sá yngsti ELSKAR þær og að sjálfsögðu fékk hann þá að baka þær.
Laugardagurinn fór í tveggja tíma fótboltaæfingu hjá þeim yngsta. Loksins grænt ljós á að hefja æfingar aftur þó hælarnir séu langt frá því að vera góðir. Kælikrem og klakar á hæla eftir æfingar er það sem er í boði núna. Hann var þó ánægður að mæta á æfingu og vonandi fer þetta allt að komast í rútínu hjá okkur og kannski leynist nýr vinur í einhverjum á fótboltaæfingunum - það væri óskandi. Svolítið erfitt að vera vinalaus í nýju landi.
Vorum svo boðin í flott boð á sunnudag - Thanksgivingpartý í Hövik. Glæsilegur matur og frábær félagsskapur. Frúin tók að sér að gera eftirréttinn. Skellti í pekanpæ sem endaði óvænt sem valhnetupæ þar sem pekanhnetur voru ekki til í þeim FJÓRUM matvörubúðum sem ég fór í á laugardaginn. Bragðaðist þó alveg afbragðsvel. Skellti líka í nokkrar minicupcakes og að þessu sinni varð vanillukaka fyrir valinu með bláu vanillukremi - fannst það svo vetrarlegt þó hitamælirinn hafi sýnt 11°C hér í Osló í gær.
Þessar litlu vinkonur voru nú ekkert ósáttar við þann fjórfætta - og hann var alsæll með alla athyglina.
No comments:
Post a Comment