Fyrir nákvæmlega ári síðan var ég grátandi heima yfir því hvað ég fékk ÖMURLEGA stundatöflu. Hún var svooo ömurleg að ég hefði getað farið í líkamsrækt á Akranesi á milli tíma og fengið mér að borða líka.... Ég lifði veturinn af en var orðin verulega þreytt í lokin - það verður bara að segjast eins og er.....
Undanfarið hafa fallið mörg tár hjá meðlimum fjölskyldunnar. "Sumir" eru ósáttir við þetta val foreldranna, sakna vinanna að sjálfsögðu óendanlega mikið og sjá ekki fyrir sér að þetta verði ævintýri og víkki sjóndeildarhringinn. Og nú hugsar þú sem lest þetta að þetta "lagast allt saman", "gefið þessu tíma", "þetta verður gaman" - en ykkur að segja þá hljómar þetta sem tuð og nöldur í eyrum 12 og 16 ára barna ...... been there done that ;).
Í gær mætti ég í skólann. Fínn skóli, örugglega hinir bestu samnemendur og allt það. Í sumar hefur blundað í mér að kannski er þetta nám ekki það sem ég vil. Ég bara fæ það ekki úr hausnum á mér. Ég mætti í gær án þess að vera með fiðrildi í maganum og tjah án eftirvæntingar líka - sem er í sjálfu sér ekkert sérlega jákvætt. EF ég vel að fara í þetta nám sé ég fram á að eiga jólafrí frá miðjum desember fram í byrjun janúar - já og svo auðvitað helgarfrí. Ég fæ frí í viku 8 á næsta ári og er búin um miðjan júní með fyrsta árið. Þarf að lesa heilu doðrantana af norskum fræðibókum, taka þátt í stórum hópverkefnum þar sem unnið er með leikræna tjáningu og fræðilegt spjall, skila stórum verkefnum og ég þarf að fara í 4 vikur fyrir jól í praktik og 3 vikur eftir jól.
Ég er skólaþreytt og ekki einu sinni byrjuð í skóla - en þó að koma úr skóla!
Þannig á manni ekki að líða, svo mikið veit ég. Ég veit líka að allir vinir mínir eru að peppa mig upp (af því þeir halda að ég sé "hrædd" við norskuna) EN það er ekki það sem er málið.......ég er bara þreytt. Mig langar ekki til að eyða fyrstu mánuðunum hérna í það að vera með samviskubit. Ég er sérfræðingur í að vera með samviskubit - ég held meira að segja að ég hafi búið til og fundið upp samviskubitið!
Það er þó einn stór mínus ef ég vel að fara ekki í þetta nám - að sjálfsögðu, annars væri þetta of auðveld ákvörðun. EF ég vel að vera heima og hugsa um börnin mín þegar þeir koma heim úr skólanum, fylgja þeim yngri í skólann þangað til hann er öruggur, prjóna, sauma, föndra, baka - tjah allt þetta skemmtilega ÞÁ verð ég að fara til Íslands næsta sumar ef ég ætla að halda vinnunni minni.... Þannig að ef ég fer ekki í námið þá er ég hér með búin að missa vinnuna - hmmmm.
Þarf aðeins að HUGSA þetta frekar en langar í fyrsta skiptið í mínu lífi að setja MIG í fyrsta sæti - það þarf enginn að hafa áhyggjur af mér - mér á í ALVÖRUNNI ekki eftir að leiðast.
Miðjan mín kom í gær frá Íslandi. Ég skrópaði seinni partinn í skólanum og fór niður í bæ að taka á móti honum á lestarstöðinni. ÞAÐ var góð hugmynd :)
Ætlum annars að leggja land undir fót í dag og fara í IKEA. Ætlum að skella okkur á 2 góðar dýnur og eina koju. Þessir rúmlega 40m2 eru ekki alveg að gera sig þannig að nú er að koma sér betur fyrir svo við höfum smá rými í eldhúsi/stofu. Höfum ekki enn heyrt í eiganda íbúðarinnar sem við erum að fara að leigja. Erum dregin á asnaeyrunum en pössum okkur á að halda ró okkar og pirringurinn er enginn - enda ekki hægt að nota hann í neitt.
3 comments:
Gerðu það sem ÞIG langar að gera.
Þú gengur inn í hvaða vinnu sem er, hafðu ekki áhyggjur af því, vinnuveitendur eru heppnir að fá þig.
Knús, knús og kremjuknús
Eltu hjartað og heilinn fylgjir einhverstaðar á eftir því!
Knús til ykkar! <3
kv. Eydís.
Þú ert svo skynsöm Elín mín að ég er sannfærð um að þú tekur réttu ákvörðunina fyrir þig.
Gangi þér vel mín kæra vinkona.
Post a Comment