Friday, September 30, 2011

ferðalag

Í gær pakkaði ungmennið í tösku brosandi allan hringinn. Í dag er ferðinni heitið til Íslands í 8 daga. Skipulagið var mjög skipulagt. Hann fór í skólann í morgun, eins og venjulega og ég átti að hitta hann kl. 11:50 niður á National-lestarstöð með töskuna. Ég mætti samviskusamlega kófsveitt með töskuna eftir að hafa labbað með hana á T-banastöðina okkar. Við röltum þar sem fluglestin fer og þegar ég ætlaði að kaupa miða fyrir ungmennið í fluglestina bað hann í leiðinni um vegabréfið og flugmiðann......obbobobbb. Því hafði móðirin steingleymt heima á eldhúsborði. Þetta þýddi bara hlaup konunnar í trikkinn - hlaup úr trikknum heim að ná í vegabréfið - hlaup í trikkinn og hlaup úr trikknum inn á lestarstöð þar sem ungmennið beið samviskusamlega. Hann komst allavega út á flugvöll (búin að fá sms) og ég gat sveitt og sæl tekið 100kg skólatöskuna hans á bakið og farið heim.


Sjáumst!

Thursday, September 29, 2011

myrkfælni

Í gær skellti ég mér enn og aftur í leiðangur. T-bani og strætó í Stoff og stil. Mig vantaði rennilása til að ljúka við töskurnar sem ég er að gera. Jebb það eru sko 4 stykki sem bíða klippt og skorin - þegar búin að sauma 2. Tveir búnir að panta tösku og fá að velja þegar ég mæti til Íslands - ekki leiðinlegt það :). Tvö pils í pöntun og einn peysukjóll. Hlakka til að fá "alvöru" saumavélarnar mínar til að geta klárað þessi verkefni. Á leiðinni í vefnaðarvöruverslunina keyrir strætó alltaf framhjá stórri Fretex búð sem mig hefur alltaf langað að fara í. Í gær lét ég verða af því, hoppaði úr strætó og skoðaði gersemarnar. Hoppaði svo bara aftur í strætó og hélt áfram ferðinni. Kom heim með þessar tvær dósir. Önnur verður í saumaherberginu (Tilda dós) - hin er algjör nostalgía frá barnæsku. Ég borgaði 5kr fyrir þá minni og 10kr fyrir þá stærri.



Eiginmaðurinn er á flakki einhversstaðar á landakortinu og við hin erum ein heima. Seinnipartinn í gær hittumst við niðri í miðbæ og keyptum nokkrar jólagjafir ásamt því að fata ungmennið upp. Ungmennið er nefnilega að fara til Íslands eftir hádegi á morgun og það lítur út fyrir fyrstu menntaskólapartýin þessa vikuna. Ég og ungmennið erum þó langt frá því að vera sammála um hvað sé eðlilegt verð fyrir fatnað og hvað ekki. Ég hef alltaf sagt að ég er fegin að eiga bara stráka og þurfa ekki að standa í öllu þessu stelpuveseni. Þegar kemur að fatnaði held ég svei mér þá að það sé bara enginn munur. Jæks!
Í gærkvöld flutti ég síðan eigin landamæri LANGT. Mig langaði að fara á fyrirlestur úti í bæ (sem ég sé sko ekki eftir - frábær hvatning). Það var komið myrkur og ég er hrædd í myrkri - hef alltaf verið. Dauðhrædd um að allir ljótu kallarnir, dópistarnir og rugludallarnir ætli að ráðast á mig....ehemmm.....klikk - æ nó. En mig langaði svo mikið að fara og jeppabifreiðin er staðsett í hinu hverfinu (hefði hvort sem er ekki ratað né séð nokkuð keyrandi ehemm). Svo ég lét mig hafa það - fór með T-bananum á staðinn - ekkert mál. Á heimleiðinni var klukkan hinsvegar farin að ganga 23 og enn meiri "nótt" úti. Ég nánast hljóp á lestarstöðina og afrekaði besta múv ever - tók lest í öfuga átt - JEIJ. Út úr lestinni og bíða í 15 mínútur eftir lest í hina áttina. Þegar ég kom á mína stöð og var að labba heim var ég bara næstum því hætt að vera hrædd.
Helv...fo....fo.... U can do it :D

Tuesday, September 27, 2011

flutningur

Jæja þá er komið að því. Sumarbústaðafílingurinn er á undanhaldi og alvaran að taka við.


Í gær kom jeppabifreiðin til Osló. Hún var keyrð á kerru hingað frá langbortistan þar sem restin af dótinu bíður í gámi eftir að komast til okkar. Hamingjusöm og sátt keyrðum við jeppabifreiðina frá staðnum þar sem við búum núna þangað sem við ætlum að flytja, lögðum bifreiðinni og tókum strætó heim. Jebbs. Ekki séns í helvíti að ég ætli að borga 30 norskar krónur á klukkutímann allan sólarhringinn fyrir að leggja bifreiðinni hér fyrir utan. Neibb. Hér verður áfram tekinn strætó, T-bani og trikkur innanbæjar enda ekkert vit í öðru. Það sem jeppabifreiðin gefur okkur er þó frelsið til að fara út fyrir bæinn.....úúúh hvað það hljómar spennandi. Á langtímadagskránni er að heimsækja ættingja upp og til hliðar á kortinu, heimsækja ættingja og vini til hliðar á kortinu, heimsækja vini niður og yfir vatnið og til hliðar á kortinu og svo aðsjálfsögðu heimsækja ættingja og vini í kóngsins köben. Fyrir utan þá sem við ætlum að bögga með heimsóknum í stuttum fjarlægðum frá borginni!
En í gær gaf jeppabifreiðin okkur meira en komandi frelsi. Í jeppabifreiðinni var þykka ullarpeysan mín - jehehesss og íslenskur LAKKRÍS újeah. Hver skyldi hafa pakkað í þakboxið inni í bílnum hmmmmm.


Um helgina fengum við að fara í heimsókn í nýju íbúðina. Ég hlakka rosalega til að flytja. Skemmtilegt umhverfi og þarna búa krakkar. Það er ekki mikið um krakka hérna í mið-miðborginni. Eiginlega sjást hér engir krakkar nema í fylgd með fullorðnum að skoða í búðir eða rétt við skólann. Eftir skóla hverfa börnin. Við vitum ekki enn hvert þau hverfa - en þau hverfa bara. Líklega fara þau heim til sín samt - eða það höldum við, ég og T.
EN ef ég hefði verið búin að sjá íbúðina áður en ég pakkaði í gáminn þá hefði ég nú líklega skilið eftir.........tjah........ansi margt. Á laugardaginn fáum við vonandi lykilinn að íbúðinni og þá verður eiginmaðurinn settur í heví vinnu að mála. Herbergin á neðri hæð íbúðarinnar eru mjög sánaklefalegar - þarf að redda því. Ég ætla ekkert að mála um helgina - nei ég ætla að skella mér aðeins til Íslands í 4 daga :). Dótið okkar kemur svo á mánudaginn þannig að þó ég hlakki til að fara til Íslands og knúsa marga, þá hlakka ég líka til að fara heim aftur fjórum dögum síðar til að hitta dótið mitt og koma mér fyrir og byrja búskapinn í útlöndunum.

Þá fyrst verður þetta alvöru.

Sunday, September 25, 2011

Loppur - saumaskapur

Í gær var yndislegt veður og við hjónin röltum okkur yfir á skólalóð grunnskólans í hverfinu. Þar var haldinn loppemarked með fullt af djönki og drasli. Ég náði mér þó í eitt stykki krítartöflu fyrir 20kr sem fær eitthvað skemmtilegt hlutverk á nýja heimilinu mínu :)

Það var hellingur af fólki á markaðinum og erfitt að komast að borðunum til að skoða....gafst eiginlega bara upp. Þarf að gíra mig upp fyrir næsta loppemarked sem ég fer á og bara olnboga mig áfram ;)

Þegar ég fór í IKEA um daginn keypti ég þetta grófa bómullarteppi. Ég ætlaði aldrei að nota það sem teppi en hafði hugsað því nýtt hlutverk.

Eitt af hlutverkunum var að breytast í peysu fyrir mig og sú er aldeilis tilbúin :). Hitt hlutverkið verður kósí púðaver.

Í gær langaði mig að gera smá tilraun. Skellti mér í H&M og keypti eitt stk bol og eitt stk herraskyrtu.



Saumaði í gærkvöld og þetta er útkoman. Nýr kjóll. Notaði eingöngu bolinn og skyrtuna. Efri hlutinn af bolnum kom í stað efri hluta af skyrtu. Og neðri hluti af bolnum kom í hliðarnar á skyrtunni til að fá útvíkkun á kjólinn (A-snið).


Thursday, September 22, 2011

ólíðandi dónaskapur

Skellti mér í leiðangur í dag með T-bana og strætó. IKEA var það í dag. Keypti flokkunartunnur, púða og efni og lét mig dreyma um allt dótið mitt sem er í gámnum á hafnarbakkanum í Osló. Nú styttist heldur betur biðin eftir íbúðinni. Vonandi fáum við að skoða hana að innan á laugardaginn..... Annars er það bara 1.október!


Í dag var líka stór dagur. Jebb. Í dag fórum við í bankann með vegabréfin upp á vasann því frúin átti að fá debetkort á reikning eiginmannsins. Hittumst fyrir utan bankann. Inn í bankann og biðum þar í rúmar 10 mínútur. Straujaðir og sleiktir bankadrengir gengu um og virtust ekki vera að gera eitt né neitt (mjög fyrir hrun fílingur í gangi) = pirringsstig 1.

Svo kom að okkur nr. 601.

Við ætlum að sækja um debetkort fyrir eiginkonuna á minn reikning sagði eiginmaðurinn.

Jahá. Er hún með reikning hjá okkur spurði bankakonan. Ég var líka á staðnum en bankakonan talaði eins og ég væri í búrku = pirringsstig 2.

Nei nei þess vegna erum við hér sagði eiginmaðurinn.

Er hún með vegabréf spurði bankakonan. Ég var enn á staðnum og þeytti vegabréfinu í konuna = pirringsstig 3.

En hún er ekki norskur ríkisborgari sagði bankakonan.

Nei sagði eiginmaðurinn.

Þá þarf hún að koma með pappíra frá norska skattinum sagði fúla bankakonan = pirringsstig 4.

Nei við nennum þessu ekki sögðum við bæði (á útlenskunni) og eiginmaðurinn sagði bankakonunni að hann væri búinn að fá nóg = pirringsstig 10.

Við gengum út í fússi. Yfir götuna og inn í annan banka. Þar tilkynnti eiginmaðurinn að hann væri viðskiptavinur í ákveðnum banka og væri búinn að fá nóg af þeim, hvort við mættum ekki vera viðskiptavinirnir þeirra.

Litla ljúfa bankakonan í venjulegu fötunum sínum sagði "að sjálfsögðu" - bað um vegabréfin okkar og norskar kennitölur og nú bíðum við bara eftir nýju kortunum okkar. Litla ljúfa bankakonan ætlar meira að segja að segja hinum bankafíflunum að við viljum ekkert með þá hafa lengur :D

Wednesday, September 21, 2011

MonsterBeans og töskur

Í síðustu viku heklaði ég skemmtilegar fígúrur sem færa eigendum sínum ýmist heppni, ást, hamingju, fé og frama- eiginlega svona "collector items". Bjó til sér umbúðir fyrir hverja og eina. Jebb - jólagjöfin í ár. Ætli ég hendi þessu ekki inn á Etsy fljótlega, nema það verði bara udsolgt áður múahahha ;).

LOVE Monsterbean

FORTUNE Monsterbean

SUCCESS Monsterbean

LUCKY Monsterbean

HAPPY Monsterbean

Bjó líka til lyklakippur - á eftir að búa til umbúðir fyrir þær sem verða meira eins og poki fyrir hverja og eina mini Monsterbean :)


Töskugerð gengur vel. Búin með þessa og er að ljúka við aðra sem er svört með hvítum doppum. Það er hægt að flytja að heiman í þessum töskum - það kemst svo mikið í þær.

Lætur ekki mikið yfir sér - þunn og flott

Hægt að troða endalaust í hana

Renndur vasi að innan

...og tveir djúpir vasar að utan

Tuesday, September 20, 2011

fullbókuð helgi

Helgin var bókuð. Fullbókuð. Hitti Þ sem býr í Þrándheimi yfir kaffibolla á Karl Johan á föstudag. Frábært að hitta hana og heyra hvernig gengur með lífið og tilveruna þarna lengst í burtu. Hún á strák sem var í bekk með T þannig að við höfðum um nóg að tala og ég skemmti mér mjög vel :). Um kvöldið tók ég T-banann út í Bekkestua og hitti flottar íslenskar konur á veitingastað. Margt skrafað og spjallað, hlegið og skipst á flutningssögum - allar nýfluttar ;). Heimurinn er mjög lítill - ein þarna kannaðist við mig í gegnum vinnufélaga sinn, ein er systir vinkonu minnar, ein er mágkona annarar vinkonu og ein er vinkona mín frá Íslandi sem flutti hingað á sama tíma og ég.....geri aðrir betur!
Á laugardag kíktum við hjónin og T í bæinn og gengum svo í Grünerløkka hverfinu og enduðum á því að fá okkur kaffisopa og límonaði á Kaffebrenneriet (en ekki hvað). Yndislegt veður, pínu kalt og notalegur félagsskapur. Á sunnudag fórum við fjölskyldan með T-bananum út í Østerås þar sem H náði í okkur og við fengum höfðinglegar móttökur hjá fjölskyldunni. Hlaðborð af veitingum, gott kaffi, frábær félagsskapur og ekki skemmti hárlitun og klipping fyrir stemningunni ;). Gerðum samning við húsráðendur og ætlum að passa Dimmu sætu þegar fjölskyldan hennar heldur til Íslands í desember.

Um helgina var líka bókamessa í Oslo midtby. Ég græddi tvo poka sem ég get notað þegar ég fer út í búð að versla - elska svona margnota poka.


Svona pokar koma sér líka vel þegar maður er umhverfisvænn. Hér í Osló flokkum við eins og enginn væri morgundagurinn. Stundum er maður í stökustu vandræðum með hvað á að fara hvar - en þetta er allt að koma. Algjör snilld hjá þeim að hafa rúllur af pokum, grænum og bláum sem maður notar til að flokka sorpið með - hægt að fá þessar rúllur ókeypis í búðinni - bara kippa þeim með í innkaupunum.


Thursday, September 15, 2011

svalir og þolinmæði

Í gær var alveg yndislegur dagur. Sonurinn átti 16 ára afmæli og sólin skein allan daginn, bæði í hjartanu og líka á himninum. Ég rauk út með myndavélina og tók nokkrar myndir af svölum. Ekki fuglunum heldur svölum á húsum í nágrenninu. Í dag, þegar ég skoða þessar myndir, langar mig pínu að sitja á veröndinni minni heima....eða sko meira flytja hana hingað! Ég held reyndar að húsinu mínu og garðinum myndi líða vel hérna.
Allavega - núna er ég að missa þolinmæðina - mig langar í dótið mitt, efnin mín, garnið mitt, fötin mín, skóna mína, kryddin mín, húsgögnin mín og SÆNGINA mína!






Tuesday, September 13, 2011

góð helgi - sushigerð

Á laugardaginn fengum við fjölskylduna í Jaren í heimsókn. Af því tilefni voru bakaðar bollakökur, meira að segja tvær sortir. Þann dag var líka markaðsdagur á Bogstadveien, sem sagt í götunni okkar. Sólin skein úti og gatan var troðfull af fólki allan daginn. Fullt af flottum tilboðum og allir í góðu skapi. Ég gerði reifarakaup rétt fyrir lokun á deginum og keypti þessa fallegu tösku en í henni get ég geymt allar eigur mínar og þínar líka ;)

Þegar ég tók miðann af töskunni tók ég eftir fallegum skilaboðum til mín :)

Um kvöldið fórum við með strætó í hverfið sem við ætlum að búa í því við fengum matarheimboð frá nágrönnunum okkar H og H. Horfðum á teiknimynd og nutum þess að vera í góðum félagsskap. Fengum meira að segja akstur heim í fornbílnum sem er á leiðinni á haugana.

Sunnudagurinn rann upp með rigningu. Ótrúlegt hvað þessi rigning getur verið mikil hérna. Það er bara alltaf rigning! Prófaði svo það sem mig hefur lengi langað til að gera en aldrei lagt í fyrr en nú. Verð nú að segja að það er stórlega ýkt að halda því fram að sushigerð sé erfið og taki tíma. Ef hrísgrjónin eru í lagi - þá er þetta ekkert mál :).

Útlitið kannski ekki það flottasta - en bragðið var æði :)

Í gær átti T valgdagsfrí og því skelltum við okkur í langferð með T-bana og strætó. Fórum í hina mjög svo þörfu búð Stoff og stil og kíktum svo á McD sem tilheyrir svona frídögum. Enduðum á klukkutíma heimsókn í Toys'r us.
Þurfti aaaðeins að versla í vefnaðarvöruversluninni og keypti m.a. mjúkt zebraefni fyrir L vinkonu mína en hún ætlar að setja það utan um stóla sem eiga að prýða nýju íbúðina hennar :)

Friday, September 9, 2011

föndur og útivist

Undanfarna daga er ég búin að vera að föndra hitt og þetta bæði í saumavélinni og líka bara í höndunum.

Fallegar "þungar" plastperlur og leðurband

Hliðartaska

..með vasa utan á, renndum vasa innan í og áföstu lyklakippubandi

Klæddi plastdós í nýjan búning og nú geymir hún símahlaðara og (h)eyrnatól heimilisfólksins. Ég á eftir að eignast nokkrar svona tómar dósir á næstu vikum/mánuðum og því um að gera að nýta það sem til fellur og búa til eitthvað sniðugt í staðinn :)

Fórum um síðustu helgi og skoðuðum okkur um við Sognsvann. Þá kom svona líka brjálæðisleg rigning og við hundblaut í T-bananum á leiðinni heim. G og eiginmaðurinn voru á fjallahjólum í drullunni en T var ekki búinn að fá hjólið sitt þá.

Gaurarnir fóru allir út að hjóla í gær í brekkum og drullumalli og á meðan skellti ég mér ein með T-bananum upp á Sognsvann og tók einn hring hlaupandi/gangandi enda var veðrið yndislegt. Ekki leiðinlegt að stunda útivist í svona veðri og ég hlakka til þegar litla gleraugnaætan kemur til okkar og við getum farið með hann með okkur í gönguferðir :). Í gær var heill hellingur af fólki að ganga, hlaupa og viðra hundana sína við Sognsvann - algjör útivistarparadís.

Rómó dinner í gær á Bolivar og nú er það hádegisdeit ;)
Góða helgi.

Tuesday, September 6, 2011

grunnskólinn - heimanám

Það sem er efst í huga mínum núna eru þessar blessuðu kennitölur eða födselsnummer hérna í Noregi. Við erum í lausu lofti - skráð úr landi heima skv. þjóðskrá en ekki komin með réttindi á einu né neinu hér. Það fer að nálgast blóðprufu hjá frúnni og því óþægilegt að búa við þetta óöryggi. Það tekur tíma að skrá sig hjá heimilislækni og svo þarf að fá tilvísun.
Á meðan við erum ekki með kennitölu þá fáum við ekki aðgang að bókasöfnum né heimanámi barnanna. Sem betur fer gátu þeir litið fram hjá þessu í skólanum hjá G og eftir viku í skólanum gat hann fengið aðgang að heimanáminu. Það er örlítið (mikið) stífara í grunnskólanum og lítill skilningur á þessum málum en enn sem komið er fær sá yngsti sent ljósritað yfirlit yfir heimanám vikunnar. Og já það er heimanám á hverjum degi hjá honum og hefur verið frá fyrsta degi. Fyrsta daginn í skólanum mættu meira að segja allir með skólatösku og nesti og svo var byrjað að læra....ekkert "halló og velkomin hér er innkaupalisti bless" dæmi. Það á að skila heimanámi dag eftir dag en ekki einu sinni í viku eins og hefur tíðkast hjá honum undanfarin ár. Ég og T höfum þó pínu áhyggjur af stærðfræðinni - hún er ALLTOF létt fyrir hann og honum leiðist alveg ógurlega að vinna þessa smábarnastærðfræði (að hans mati). Við þurfum því að fara að fá gáminn sem geymir ýmisleg krefjandi verkefni sem mamman er með í pokahorninu ;). Svo má nú alveg fara að huga að íslenskunni þannig að við kippum nú væntanlega með einhverju íslenskudóti þegar við verðum í Reykjavík í október.

Það er sárlega lélegt verk- og listgreina framboð í grunnskólanum - 120 mínútur á viku í myndmennt og 75 mínútur í tónmennt er það sem verður boðið upp á allan veturinn. Engin textílmennt, heimilisfræði og smíði. Ekki kannski alveg það sem unginn hefur áhuga á en það verður að duga - svona er þetta bara ;). Skólinn er með þeim skítugri sem ég hef séð, niðurníddur og tala nú ekki um skólalóðina sem er illa farin. Það eru þó leiktæki og borðtennisborð í garðinum sem er steyptur en það er verið að taka húsnæðið í gegn að utan.

Stærsti plúsinn við grunnskólann finnst mér lengd kennslustundanna og aginn. Kennslustundir eru 60 mínútur hver og er nemendum ekki vorkennt þó þeir þurfi að vera 120 mínútur í einu. Fyrstu tvær kennslustundirnar eru kenndar í einu svo kemur hálftíma  matartími (enginn matur í skólanum, nesti er það heillin) svo 45 mínútna útivera og svo keyrir dagurinn á 60 mínútna tímum og pásum inn á milli. Þegar skólastýran kemur inn í kennslustofuna standa nemendur upp fyrir henni. Þegar kennarinn hefur boðið hvern og einn velkominn inn í stofuna (stendur við hurðina) þá standa nemendur fyrir aftan stólana þangað til þeir fá leyfi til að setjast.

Er búin að setja plast (ekki límplast) utan um slatta af bókum. Höfum ekki þurft að kaupa neitt fyrir skólann hjá T nema kannski liti. Þurftum að kaupa stíla- og reikningsbækur fyrir G og líka rosalega fínan vasareikni. Aðrar bækur hjá G eru innifaldar í verðinu sem er nú bara ágætt því skólinn hans er langt frá því að vera ókeypis ehemmm.

Thursday, September 1, 2011

sauma - sauma

Skrapp í PanduroHobby á KarlJohan í dag til að kaupa textíllakk. Vantaði svoleiðis til að loka endum á töskumerkjunum sem ég var að búa til og sauma. Keypti líka vanillalitað karton til að setja inn í merkin. Gerði svona merkispjöld fyrr í vor handa okkur fjölskyldunni og nú finnum við alltaf töskurnar okkar á bandinu í flugstöðinni ;). Ætla að skella þessum á Etsy í kvöld eða morgun.

Lauk við myndina sem ég var byrjuð á og ætla nú að byrja á fjórðu krosssaumsmyndinni. L vinkona mín er búin að panta eina mynd (án krumma) svo nú er að bretta upp ermar og hefjast handa á myndinni :).


Stóru karlarnir að hjóla uppi í fjöllum og sá yngsti kemur annaðkvöld úr skólaferðalaginu, rétt í tæka tíð til að fara á völlinn með þeim stóru að horfa á Noregur-Ísland. Það á svo eftir að koma í ljós hvort hann sé kannski of þreyttur til að fara með....