Það sem er efst í huga mínum núna eru þessar blessuðu kennitölur eða födselsnummer hérna í Noregi. Við erum í lausu lofti - skráð úr landi heima skv. þjóðskrá en ekki komin með réttindi á einu né neinu hér. Það fer að nálgast blóðprufu hjá frúnni og því óþægilegt að búa við þetta óöryggi. Það tekur tíma að skrá sig hjá heimilislækni og svo þarf að fá tilvísun.
Á meðan við erum ekki með kennitölu þá fáum við ekki aðgang að bókasöfnum né heimanámi barnanna. Sem betur fer gátu þeir litið fram hjá þessu í skólanum hjá G og eftir viku í skólanum gat hann fengið aðgang að heimanáminu. Það er örlítið (mikið) stífara í grunnskólanum og lítill skilningur á þessum málum en enn sem komið er fær sá yngsti sent ljósritað yfirlit yfir heimanám vikunnar. Og já það er heimanám á hverjum degi hjá honum og hefur verið frá fyrsta degi. Fyrsta daginn í skólanum mættu meira að segja allir með skólatösku og nesti og svo var byrjað að læra....ekkert "halló og velkomin hér er innkaupalisti bless" dæmi. Það á að skila heimanámi dag eftir dag en ekki einu sinni í viku eins og hefur tíðkast hjá honum undanfarin ár. Ég og T höfum þó pínu áhyggjur af stærðfræðinni - hún er ALLTOF létt fyrir hann og honum leiðist alveg ógurlega að vinna þessa smábarnastærðfræði (að hans mati). Við þurfum því að fara að fá gáminn sem geymir ýmisleg krefjandi verkefni sem mamman er með í pokahorninu ;). Svo má nú alveg fara að huga að íslenskunni þannig að við kippum nú væntanlega með einhverju íslenskudóti þegar við verðum í Reykjavík í október.
Það er sárlega lélegt verk- og listgreina framboð í grunnskólanum - 120 mínútur á viku í myndmennt og 75 mínútur í tónmennt er það sem verður boðið upp á allan veturinn. Engin textílmennt, heimilisfræði og smíði. Ekki kannski alveg það sem unginn hefur áhuga á en það verður að duga - svona er þetta bara ;). Skólinn er með þeim skítugri sem ég hef séð, niðurníddur og tala nú ekki um skólalóðina sem er illa farin. Það eru þó leiktæki og borðtennisborð í garðinum sem er steyptur en það er verið að taka húsnæðið í gegn að utan.
Stærsti plúsinn við grunnskólann finnst mér lengd kennslustundanna og aginn. Kennslustundir eru 60 mínútur hver og er nemendum ekki vorkennt þó þeir þurfi að vera 120 mínútur í einu. Fyrstu tvær kennslustundirnar eru kenndar í einu svo kemur hálftíma matartími (enginn matur í skólanum, nesti er það heillin) svo 45 mínútna útivera og svo keyrir dagurinn á 60 mínútna tímum og pásum inn á milli. Þegar skólastýran kemur inn í kennslustofuna standa nemendur upp fyrir henni. Þegar kennarinn hefur boðið hvern og einn velkominn inn í stofuna (stendur við hurðina) þá standa nemendur fyrir aftan stólana þangað til þeir fá leyfi til að setjast.
Er búin að setja plast (ekki límplast) utan um slatta af bókum. Höfum ekki þurft að kaupa neitt fyrir skólann hjá T nema kannski liti. Þurftum að kaupa stíla- og reikningsbækur fyrir G og líka rosalega fínan vasareikni. Aðrar bækur hjá G eru innifaldar í verðinu sem er nú bara ágætt því skólinn hans er langt frá því að vera ókeypis ehemmm.
2 comments:
Er ekki þriðja bókin í bunkanum stærðfræði? Mér sýnist þetta vera Stika sem er að koma út fyrir miðstig (komin fyrir 5. bekk og á að vaxa upp með þeim).
Hlakka mikið til að hitta þig í okt. vona að þú hafir tíma til að kíkja í heimsókn.
knús
Hmmm veit ekki með Stika en þessi heitir Multi7 fyrir 7.bekk. En við erum að tala um aaaaðeins of létt fyrir minn 7.bekking. Við kippum með stærðfræðibókum fyrir menntskælinginn og grunnskólanemann þegar við komum heim í okt.
Auðvitað ætla ég að hafa tíma fyrir þig :)
Post a Comment