Thursday, May 10, 2012

sjúk söfnunarárátta

Ég væri nú aldeilis gott efni í gaur með sjúklega söfnunaráráttu. Ef ég væri sá gaur þá ætti ég núna fulla íbúð af garni, efnaströngum, tölum, bókum, styttum, fötum, húsgögnum, tækjum og tólum. Jebb, það væri sjálfsagt ekki hægt að þverfóta fyrir öllu "sniðuga" dótinu sem ég finn á hverjum degi út um allt og hugsa....hmmmm þetta gæti nú verið sniðugt að búa til eitthvað úr - þ.e.a.s. ef ég tæki það allt saman með mér heim! Líklega nægði mér ekki íbúð - bóndagarður í eyði væri sjálfsagt bestur fyrir söfnunargaurinn.
Ég var nefnilega ekki alveg sanngjörn við sjálfa mig í naflaskoðuninni. Í vetur hef ég gengið rúmlega 900km, jebbs, rúmlega níuhundruð kílómetra. Mér finnst ekki gaman að hlaupa en ég ELSKA að ganga. Og ég geng úti á hverjum degi sama hvernig viðrar. Ég gekk meira að segja í janúar og febrúar þegar ég var sem verst af rassbrotinu - gekk bara aðeins hægar! Og stundum hef ég alveg hlaupið - mér finnst það bara svo afspyrnu leiðinlegt - og ég er alveg búin að hlaupa meira en 25 km frá áramótum........en ég nenni bara að muna eftir þessum 25 af því mér finnst þetta svo leiðinlegt. Og jú jú ég gerði alveg magaæfingar í janúar þangað til ég braut rassbeinið - þá var ég löglega afsökuð og svo hef ég bara ekki fundið tíma til að gera þær aftur eeehhh. Ekki það, ég hef svo sem allan tíma í heiminum, en mig langar bara miklu meira að eyða honum í eitthvað allt annað en magaæfingar.

Í fyrradag var ég sem sagt í einni kraftgöngunni og sá þá þennan kjól í glugganum á Fretex. Og ég er búin að vera að hugsa um hann síðan. Þannig að í morgun ákvað ég að fara aftur í göngutúr á sama stað og fara inn í búðina að kíkja á kjólinn. Yndislegt að vera svona ein heimavinnandi en ekki útivinnandi *hóst*........


Þarna inni eyddi ég dágóðum tíma. Það er nefnilega ódýrara í þessari búð en mörgum öðrum Fretex búðum sem ég hef farið í. Engin vond lykt og allt svo snyrtilegt og gott andrúmsloft. Ég kom nú ekki heim með kjólinn en ég kom heim með 5 hluti fyrir samtals 178kr. Nokkuð ljóst að ég þarf að fara að koma mér í vinnu eða skóla. Ó já ég sótti um skóla en gleymdi bara að senda fylgigögnin á réttum tíma og því fæ ég ekki inngöngu.......hmmmmmmm......sauður eða sauður?

Tréhálsmen (veit ekki alveg hvað ég ætla að gera við það)
Tréarmband sem ég ætla að nota, stendur á lítilli gylltri plötu LBVYR
Steina-armband sem ég ætla að nota

Eigum við að ræða þessa DJÚSÍ hekluðu hyrnu (og ekki úr ull)


Þetta pils rataði líka með heim - og já ég mátaði það í búðinni (máta annars ALDREI).
Ætla að stytta það ofan frá - ekki af því það passar ekki í mittið neinei
- heldur af því ég er svo lítil *hóst*

Tuesday, May 8, 2012

naflaskoðun

Bráðum er ég búin að vera heimavinnandi í heilt ár. Jebb HEILT ÁR. Það eru nú alveg nokkrir mánuðir í það samt. En heilt ár. Vá hvað tíminn líður hratt. Í vetur er ég sem sagt búin að vera í stöðugri naflaskoðun. Velta og snúa, hrista og strjúka - aðallega sjálfri mér. Niðurstaðan er einföld. Allra stærsti ókosturinn við mig er hæðin - eða smæðin.
Mér finnst enginn ókostur að vera með uppáskrifað PCO's (Fjölblöðrueggjastokkaheilkenni - sæll) og Hashimotos (eðal latur skjaldkirtill). Er löngu orðin vön því. En ég venst því seint að vera í KJÖRÞYNGD en bara heldur lágvaxin miðað við þá kjörþyngd!
Hausinn á mér er rosalega duglegur að segja mér að hendast út að hlaupa, lyfta lóðum, gera magaæfingar, plankaæfingar og hvað veit ég. Í raun hef ég kannski hlaupið 25 km síðan 1. janúar 2012. Ég hef sest tvisvar upp á hjólaskrímslið - og nei ég hjólaði ekki hringinn í kringum landið. Hef í alvörunni ekki gert eina magaæfingu né plankaæfingu síðan 1. janúar. Ég held nefnilega að hausinn viti líka að það er alveg sama hvað ég geri mikið af þessum æfingum - ég verð ekki hærri. Hausinn VEIT að ég er í kjörþyngd. Ég er eiginlega haldin reverse anorexia. Þegar ég lít í spegil sé ég bara megabeib. Verð því alltaf alveg kjaftstopp þegar ég sé myndir af mér (sem einhver myndaglaður þarf endilega að taka). En á myndunum sést greinilega að ég er of lágvaxin miðað við kjörþyngdina mína.

Auglýsi hér með eftir lengingaraðferðum - og þá ekki hárlengingaraðferðum - því ég nenni ekki megrunum. Ég er ágæt eins og ég er og ég borða 90% hollan mat (huh þarna var ég sko hreinskilin).

Kv.
Hobbitinn

P.s. Þetta er ekki þunglyndisblogg - í guðanna bænum ekki fara að peppa mig eitthvað upp - ég hækka ekkert við það. Farið frekar og eyðið tímanum í að finna upp lengingaraðferðir :D