Tuesday, June 12, 2012

fjórar vikur

Undanfarin ár hef ég verið þreytt. Jebb, bara mjög þreytt. Samt alltaf á iði enda klárlega með einhverjar skemmtilegar greiningar (ef ég myndi vilja komast að því). Mér hefur verið illt í öllum liðum og vöðvum. Fundið extra mikið til þegar eitthvað hefur komið við mig...átt erfitt með að beygja fingur og liði á morgnanna. Erfitt að fara fram úr vegna verkja á morgnanna og erfitt að standa upp úr sófanum eftir glápið eða hvíldina. Í mörg ár er ég búin að vera í rúmlega 100% krefjandi vinnu + aukavinnu - alltaf. Læknar hafa mælt með járn og blóðaukandi töflum þar sem ég hef verið langt undir öllum eðlilegum og óeðlilegum mörkum í blóðprufum. Ég hef alltaf verið með einhverskonar útbrot í andlitinu - hálfgerðar unglingabólur (frekar pirrandi fyrir konu á þessum aldri ehemmm). Í vetur hef ég verið starfandi heima við ritstörf og sjálfsræktun. Verkir fóru samt ekki, þó ég væri ekki í yfir 100% vinnu + annarri vinnu!
Fyrir rúmum fjórum vikum síðan ákvað ég að gera einfalda tilraun. Kannski flókna fyrir suma - en einfalda fyrir mig. Tilraunin fólst í því að taka glúten úr matnum mínum. Ekkert flókið - bara út með glúten punktur basta. Það er til kex, hveiti, brauð, pasta, snakk og nammi sem er ekki með glúteni. Það er meira að segja til bjór með engu glúteni. Þannig að þetta er í raun ekki mikið mál. Tilraunin var gerð að vel athuguðu máli þar sem ég var búin að lesa og lesa og lesa og ..... lesa allskonar greinar og rannsóknir. Algengasta merki um glútenóþol er niðurgangur....EN það er ekki EINA merkið um glútenóþol. Og þá er það sagt. Þeir sem eru með glútenóþol fá alveg jafn mikinn útblásinn/uppþembdan maga af speltbrauði eins og hveitibrauði - jebbs.

Glútenfría heimabakaða brauðið mitt
sem var að koma úr ofninum.

BakeFri er eina glútenlausa bakaríið í Osló
- en hei - það er glútenlaust og gott :D


Niðurstöður 4. vikna tilraunar:
útþaninn magi = hætt
tregur magi = hætt
"unglingabólur" = horfnar
roði í andliti = minnkað
verkir í fingrum á morgnanna = veruleg minnkun (er enn að dást að þessu á morgnanna)
verkir í fingrum seinnipart og á kvöldin = veruleg minnkun
verkir í liðum = veruleg minnkun
verkir í vöðvum eftir gönguferð/skokk = hætt
þreyta = veruleg minnkun
upptaka járns = frábær
kílóafjöldi = sá sami
hæð í sm = sá sami

Heildarniðurstaða:
glúten er ekki fyrir mig
- og vinir/fjölskylda ekki hafa áhyggjur, ég
hef bara með mér nesti í poka ef ég held að ég komi til með að
svelta í afmælum/matarboðum hehe

Eftir 6 daga er ég að fara í 8 daga ferðalag með Frú Galin. Fyrst verð ég ein í heilan dag í Mílanó á meðan ég bíð eftir gönguhópnum frá Íslandi. Við erum að fara að ganga um í sælkeralandi Toscana, læra að búa til jurtasmyrsl og njóta þess að vera í stelpufríi. Ég ætla að fara með fluglestinni inn í miðborg Mílanó og skoða m.a. dómkirkjuna, Scala óperuna, allar flottu rándýru verslanirnar í gullhverfinu, fá mér aperitivo og snúa mér í hringi á nautshreðjunum....tjah bara svona á meðan ég er að hanga og bíða eftir hópnum, enda ekkert vit í því að hanga í 11 tíma á flugvellinum og bíða. Ég hef farið nokkrum sinnum inn í miðborg Mílanó og er því alls óhrædd með að hanga þar í heilan dag. Það væri þó óneitanlega skemmtilegra að hafa einhvern til að hanga með.
Það sem vefst hinsvegar fyrir mér er sú staðreynd að ég er að pakka fyrir ferðalag sem varir í fjórar vikur. Ég fer til Íslands frá Ítalíu og lendi ekki aftur í Noregi fyrr en nákvæmlega fjórum vikum eftir að ég legg af stað þaðan. Fyrir Ítalíuferðina þarf ég gönguskó og göngufatnað, íþróttafatnað og þunnan fatnað. Fyrir Ísland þarf ég þykkari fatnað, pæjuskó, pæjuföt, föt fyrir eina fermingu og eitt brúðkaup. Hvað má maður aftur ferðast með mörg kíló.......fjúffff?

Búin að sauma sumarhattinn fyrir Toscanaferðina og svo komu
léttu gönguskórnir með pósti í gær frá UK.

Friday, June 1, 2012

glúten

Búin að endurheimta eiginmanninn frá Íslandi. Hann skellti sér til Íslands í viku og fór m.a. í flotta vinnuferð til Aðalvíkur. Kom endurnærður heim, alsæll með ferðina. Mamma kom til okkar (mín og strákanna) um helgina og við fengum frábært veður allan tímann sem hún tók svo með sér aftur til Íslands. Verði ykkur að góðu. Við áttum góðan tíma saman um helgina, fórum m.a. í bæinn, á kaffihús, út að borða, sátum í sólinni úti á verönd, fórum í sólbað úti í garði, horfðum á fótboltaleik..... Mamma gaf mér þessa fallegu hálsfesti eftir Hlín Reykdal - þvílík fegurð. Takk takk takk elsku mamma mín.


17 dagar og þá flýg ég ein til Mílanó. Þarf að hanga þar í 10 klukkutíma þangað til restin af gönguhópnum kemur. Jebb. Júní er mættur og ég er að fara í stelpuferðina mína til Toscana. Eins og ég skrifaði í pistli hér í lok síðasta árs þá vissi ég að á þessum tímapunkti myndi ég sjá eftir því að hafa ekki æft fyrir ferðina. Sá tímapunktur er sem sagt kominn. Ég þekki sjálfa mig svooo vel....hehe. Ég er samt tilbúin í hausnum að fara af stað og neibb sé ekki eftir því að hafa ekki æft stíft. Kannski sé ég eftir því á meðan ég er að ganga, en ég er nú ekki að hafa áhyggjur af því núna. Á eftir að redda mér nokkrum hlutum til fararinnar og á pottþétt eftir að sleppa því að kaupa létta gönguskó....af því ég á eftir að gleyma því of lengi og svo bara vúpsí er komið að ferðadegi...hmmmm!

Undanfarnar 3 vikur hef ég verið á glútenlausu fæði. Tilraunaverkefni þar sem ég hef verið að reyna að finna leið til að hætta að vera svona þreytt og illt í öllum liðum og vöðvum. Járnleysið hefur lítið batnað síðan í janúar (þegar ég náði sögulegu lágmarki í járnbúskap) þrátt fyrir að hafa tekið tvöfaldan skammt af járni frá því í janúar. Fyrir viku síðan ákvað ég að minnka járnskammtinn í einfaldan því - jebbs - mér líður miklu betur. Ég er ekki stíf og stirð eftir göngutúrana, get staðið upprétt þegar ég fer á fætur á morgnanna (eða stend upp úr sófanum), get beygt fingur án verkja........ Tilraunin átti að vera til fjögurra vikna og ég er spennt að sjá hvernig heilsan er eftir eina viku (ábyggilega miklu miklu betri). Ég hef jafnvel verið að gæla við að fara út að skokka - en passa mig á að anda djúpt þegar ég fæ þá hugmynd, fá mér kaffisopa og gleyma svo hugmyndinni hahahahaha (vá hvað mér finnst leiðinlegt að hlaupa). En fyrir þá sem eru núna orðnir grænir af öfund af því þeir halda að ég sé orðin 1.74 og 90-60-90 þá geta þeir sömu andað léttar. Eins og áður hefur ekkert gramm ákveðið að yfirgefa minn frábæra líkama þrátt fyrir þessa skemmtilegu tilraun. Hinsvegar er ég pottþétt hrikalega holl að innan - allavega í smáþörmunum - því þeir eru farnir að taka járnið meira inn í systemið en áður - júhú.

En varðandi glútendæmið - það er glúten í öllu, eða þannig. Ekki vissi ég að það væri hægt að kaupa glútenlaust mjöl (hveiti) og glútenlaust pasta.....svei mér þá - það er bara allt til. Þar sem synirnir eru alltaf frekar skeptískir þegar kemur að matar- og kökugerð heimilisins (finnst þetta aðeins of hollt) og kalla allt speltmat (mjög hallærislegt að vera með speltmat - þó það sé ekkert spelti í matnum hehe) - þá eru þeir núna illa haldnir af því að allt verði glútenlaust á heimilinu (án þess að vita almennilega hvað glúten er).... Þessi blessuð börn.

Er annars alltaf að detta á skemmtilegar uppskriftir og í gær bjó ég til bountynammi sem fer beint í flokkinn með hrásnickerskökunni - namminamm. Uppskriftina fékk ég hér og nafna mín hún Elin er svo sannarlega með fullt af góðum og skemmtilega hollum uppskriftum.

Kakósmjör, lukuma, kakó, vanilla.

Kókosmjöl, sukrinmelis og kókosmjólk.




Ég átti afgang af súkkulaðinu og hellti því í konfektform og bætti
einni heslihnetu í hvert hólf.