Tuesday, August 30, 2011

Etsy

Jamm þá er frúin búin að opna Etsy-búð. Engin ástæða til að hangsa og liggja í leti, nei nei. Nú er það bara gleðin og hamingjan við að skapa. Er búin að setja fyrstu afurðina út á netið og það bætast fleiri við fljótlega :). Nú og ef afurðirnar seljast ekki - þá vitið þið allavega hvað þið fáið í jólagjöf í ár ;)



Monday, August 29, 2011

ein heima

Skellti mér í efnaleiðangur í dag. Þvílík rigning. Hef sjaldan upplifað jafn mikla rigningu. Eins gott að við Ilse erum bestu vinkonur þannig að ég blotnaði ekkert í fæturna. Notaði líka þessa líka dásemdar regnhlíf sem bjargaði efri hlutanum þar sem frúin er ekki búin að fjárfesta í regnkápu. Er jafnvel að gæla við hugmyndina um að sauma bara eitt stykki sjálf....alveg aaaaalein ;)

Fór í hina mætu verslun Stoff og stil og verslaði í svona eins og einn góðan haldapoka. Var inni í versluninni í tæpa tvo tíma....bara að skoða og þukla og endaði á að versla eitthvað af efni, tvinna, títuprjóna, garn, rennislása og sníðapappír. Nú á að vinda sér í saumaskapinn.




Hér er skálin sem ég keypti um daginn á flóamarkaðinum. Ætla pottþétt að fara þangað aftur einhvern laugardaginn. Gerði heiðarlega tilraun síðasta laugardag en það rigndi svo mikið að ég varð að fara heim hundblaut. Var í stígvélum en gleymdi regnhlífinni ehemmm.....

Annars erum við bara tvö heima, ég og G. Eiginmaðurinn er á fundi fjarri borginni næstu daga og T er jú í skemmtilegu skólaferðalagi með bekknum sínum. Kvöldmaturinn var því kebab fyrir einn og sushi fyrir einn :)

Friday, August 26, 2011

Læknir og skólaskip

Jebbs í þessari viku heimsóttum við lækni á Aker sykehus. Fyrir fram ákveðin skoðun á eiginmanni. Tveir strætóar og við vorum á góðum tíma. Ungur flottur læknir sem tók á móti okkur, overlege og allt ;). Spurði fyrst hvort við ættum að tala ensku en eiginmaðurinn og ég héldum nú að við gætum talað norsku og sögðum honum að við hefðum nú búið í DK í 10 ár. Þvílík heppni - er ekki bara læknir eiginmannsins DANI og við gátum talað DÖNSKU allan læknatímann - slegið á létta strengi og alles...........þvílík heimþrá sem ég fékk - sko heim til Danmerkur ehe! Besta þjónustan sem eiginmaðurinn hefur fengið í eftirfylgni á krabbameininu og er skápurinn nú yfirfullur af nýjum lyfjum og sterkari en þau sem hann hefur verið að taka - því sá skammtur er bara alls ekki að virka.

Skellti mér í dag og keypti eitt stykki saumavél. Jább - ég get bara ekki verið án saumavélar í 5 vikur í viðbót, þannig er það bara. Svo núna á ég eina sæta AEG saumavél sem ég ætla að nota til að sauma eitthvað lítið og sætt - jeij ;)

T ætlar svo að skella sér í skólaferðalag/skólabúðir/leierskole með bekknum sínum í tæpa viku. Þau leggja af stað frá aðalbrautarstöðinni kl. 23 á sunnudagskvöld og fara með næturlest til Bergen. Þaðan fara þau um morguninn með rútu inn í Harðangursfjörðinn þar sem bíður þeirra skólaskipið Mathilde. Þar ætla þau að búa og vinna og veiða og elda og synda og leika og sigla á milli hafna í firðinum fram á föstudagsmorgun þegar þau fara aftur með lestinni til Osló. Nemendurnir eiga að sofa í hengirúmum og það finnst syninum ekki leiðinleg tilhugsun ;). T er svo hugrakkur að hann sér bara möguleika í þessari ferð og hlakkar mikið til. Hér er búið að fjárfesta í alvöru sjóararegnfötum, stígvélum, ullarundirfötum og svefnpoka því allt okkar dót er fast í gámi á hafnarbakkanum í Reykjavík enn sem komið er......ehemmm.

Þetta er skólaskipið Mathilde

Hvernig mömmunni á eftir að vegna á meðan drengurinn er í ferðalaginu skal ósagt látið að svo stöddu!

Hér er svo tilbúin myndin sem ég keypti til að sauma áður en ég fór að heiman í byrjun ágúst. Tók nokkra klukkutíma og þá var þessi tilbúin :)


Monday, August 22, 2011

Seje gutter

Skólinn er byrjaður. Jebbs, það er sá tími ársins og báðir drengir fóru í skólann í dag hér í Norge. Frumburðurinn átti líka að fara í skólann á Íslandi en hann er enn ekki búinn að ná sér eftir aðgerðina fyrir 2 vikum og var því heima. Vonandi kemst hann eitthvað í skólann í þessari viku. Miðjan og sá yngsti stóðu sig með þvílíkri prýði í dag - töff og erfitt - en þeir lifðu daginn af og það kemur nýr dagur á morgun. Þetta er ekki auðvelt - langt frá því - en þeir eru harðir og langflottastir og eiga eftir að standa sig með sóma þessar elskur :)
Annars hafa síðustu dagar verið eitthvað í þessa veru:

G smíðar kojurnar

Skrapp á hundasýningu í Bjerke og hitti þar góða vinkonu með Díönu prinsessu meistaraefni og hálfsystur gleraugnaætunnar

mmmm góður ís í hitanum í miðbænum

Frúin hannaði og saumaði þetta alveg sjálf :)

Kaldhefaðar morgunbollur namminamm

Rigning og þá var regnhlífin og "ilse" viðraðar

Fórum með langferðabifreið að heimsækja góða vini í útjaðri borgarinnar

Thursday, August 18, 2011

Ljúft sumarfrí

Það er nú ekki leiðinlegt að vera enn í sumarfríi. Við þvælumst um hverfin hérna með trikkum, strætóum og T-bönum og allir eiga sinn uppáhalds ferðamáta. Ég vil helst fara með trikknum því hann stoppar beint fyrir framan húsið ;). G vill helst fara með T-bananum því þar er ekki svo þröngt og T vill helst fara með strætó því þar er skilti sem maður getur séð næstu "margar" stopp-stöðvar. Við höfum lent á skemmtilegum mörkuðum og í einni kaffihúsaheimsókninni fann ég þennan fína bækling og kippti honum með af því hann er BLEIKUR :). Er reyndar búin að lesa í honum líka og finna a.m.k. 4 fjölskylduatburði sem væri gaman að mæta á.


Við ákváðum að baka fljóta súkkulaðiköku í bolla og nota til þess örbylgjuofninn. Ég skipti uppskriftinni að einni köku í tvo bolla (af því þetta voru ekki stórir bollar) setti bollann í örbylgjuofninn og stillti á 3mín eins og getið var í uppskriftinni. Við megum þakka fyrir að slökkvilið Oslóborgar hafi ekki mætt á svæðið með reykkafara og læti.......kakan brann og brunalyktin var í íbúðinni í maaaarga klukkutíma ehemmm. En næstu þrjár kökur tókust þó vel enda bara settar í ofninn í tæpar tvær mínútur,  tvær uppskriftir = 4 kökur :)
Deigið komið í bollann

Komin úr örbylgjuofninum

Flottar bollakökur

Þessi ungi herra var svo ekki óánægður þegar pakkinn kom frá Íslandi sem hann hafði pantað. Svo nú er það bara kósýgallinn öll kvöld.

Þar sem allar uppskriftabækur og blöð eru föst í gámi heima á Íslandi hefur það verið skemmtileg nýbreytni að elda hérna í höfuðstöðvunum. Í gær gúgglaði ég kjúklingur og spínat og fékk þennan líka gómsæta rétt upp á skjáinn sem ég hef aldrei prófað áður. Þessi verður ábyggilega á disknum mínum aftur á næstu vikum :)
Ok búið að borða smá af réttinum enda var hann rosalega góður

Óh svo rataði þessi litli snáði í poka hjá mér í Kremmerhuset

og í þeirri verslun var einmitt að finna þessi fínu orð

Wednesday, August 17, 2011

Tárin flæða

Fyrir nákvæmlega ári síðan var ég grátandi heima yfir því hvað ég fékk ÖMURLEGA stundatöflu. Hún var svooo ömurleg að ég hefði getað farið í líkamsrækt á Akranesi á milli tíma og fengið mér að borða líka.... Ég lifði veturinn af en var orðin verulega þreytt í lokin - það verður bara að segjast eins og er.....

Undanfarið hafa fallið mörg tár hjá meðlimum fjölskyldunnar. "Sumir" eru ósáttir við þetta val foreldranna, sakna vinanna að sjálfsögðu óendanlega mikið og sjá ekki fyrir sér að þetta verði ævintýri og víkki sjóndeildarhringinn. Og nú hugsar þú sem lest þetta að þetta "lagast allt saman", "gefið þessu tíma", "þetta verður gaman" - en ykkur að segja þá hljómar þetta sem tuð og nöldur í eyrum 12 og 16 ára barna ...... been there done that ;).

Í gær mætti ég í skólann. Fínn skóli, örugglega hinir bestu samnemendur og allt það. Í sumar hefur blundað í mér að kannski er þetta nám ekki það sem ég vil. Ég bara fæ það ekki úr hausnum á mér. Ég mætti í gær án þess að vera með fiðrildi í maganum og tjah án eftirvæntingar líka - sem er í sjálfu sér ekkert sérlega jákvætt. EF ég vel að fara í þetta nám sé ég fram á að eiga jólafrí frá miðjum desember fram í byrjun janúar - já og svo auðvitað helgarfrí. Ég fæ frí í viku 8 á næsta ári og er búin um miðjan júní með fyrsta árið. Þarf að lesa heilu doðrantana af norskum fræðibókum, taka þátt í stórum hópverkefnum þar sem unnið er með leikræna tjáningu og fræðilegt spjall, skila stórum verkefnum og ég þarf að fara í 4 vikur fyrir jól í praktik og 3 vikur eftir jól.

Ég er skólaþreytt og ekki einu sinni byrjuð í skóla - en þó að koma úr skóla!

Þannig á manni ekki að líða, svo mikið veit ég. Ég veit líka að allir vinir mínir eru að peppa mig upp (af því þeir halda að ég sé "hrædd" við norskuna) EN það er ekki það sem er málið.......ég er bara þreytt. Mig langar ekki til að eyða fyrstu mánuðunum hérna í það að vera með samviskubit. Ég er sérfræðingur í að vera með samviskubit - ég held meira að segja að ég hafi búið til og fundið upp samviskubitið!

Það er þó einn stór mínus ef ég vel að fara ekki í þetta nám - að sjálfsögðu, annars væri þetta of auðveld ákvörðun. EF ég vel að vera heima og hugsa um börnin mín þegar þeir koma heim úr skólanum, fylgja þeim yngri í skólann þangað til hann er öruggur, prjóna, sauma, föndra, baka - tjah allt þetta skemmtilega ÞÁ verð ég að fara til Íslands næsta sumar ef ég ætla að halda vinnunni minni.... Þannig að ef ég fer ekki í námið þá er ég hér með búin að missa vinnuna - hmmmm.

Þarf aðeins að HUGSA þetta frekar en langar í fyrsta skiptið í mínu lífi að setja MIG í fyrsta sæti - það þarf enginn að hafa áhyggjur af mér - mér á í ALVÖRUNNI ekki eftir að leiðast.

Miðjan mín kom í gær frá Íslandi. Ég skrópaði seinni partinn í skólanum og fór niður í bæ að taka á móti honum á lestarstöðinni. ÞAÐ var góð hugmynd :)
Ætlum annars að leggja land undir fót í dag og fara í IKEA. Ætlum að skella okkur á 2 góðar dýnur og eina koju. Þessir rúmlega 40m2 eru ekki alveg að gera sig þannig að nú er að koma sér betur fyrir svo við höfum smá rými í eldhúsi/stofu. Höfum ekki enn heyrt í eiganda íbúðarinnar sem við erum að fara að leigja. Erum dregin á asnaeyrunum en pössum okkur á að halda ró okkar og pirringurinn er enginn - enda ekki hægt að nota hann í neitt.


Monday, August 15, 2011

tíminn flýgur...með Icelandair

Á morgun kemur G til landsins. Hann flýgur með Icelandair í fyrramálið og kemur sér svo sjálfur af flugvellinum með fluglestinni og svo með T-bananum hingað á Majorstuen. Hann getur þetta alveg - enda búinn að gera þetta áður. Af hverju er ég þá með fiðrildi í maganum? Ég ætlaði að taka á móti honum á lestarstöðinni en fyrsti skóladagurinn minn er í fyrramálið, upplýsingafundir og hópefli.......á norsku........EINMITT! Kannski er það þess vegna sem ég er með fiðrildi í maganum. En á meðan ég er ekki að spá í skólann þá er ég að skoða blöð og blogg og rétt við það að ljúka við krosssauminn - ekki leiðinlegt það ;).

T lauk við að mála stafina sína í gær en hann ætlar að hafa þá uppi á vegg í nýja herberginu sínu.

Annars þarf ég að skila inn sakarvottorði í skólann fyrir 1.september. Þegar ég hringdi heim fyrir helgi, til að fá það sent hingað, var mér tjáð að það væri ekki hægt. Ó nei ég þarf að mæta í eigin persónu með skilríki til að fá þetta plagg afhent. Stúlkan sem svaraði í símann hjá sýslumanni sagði þó að ég gæti "reynt" að senda umboð til Íslands (ekki nóg að senda tölvupóst) og fá einhvern annan til að mæta með skilríkin sín og ná í sakarvottorðið. Ég held svei mér þá að skrifræðið heima sé ekkert minna en hér!

Litli ferfætlingurinn gerist svo Dani þann 2.september en þá ætlar yndislegi dýralæknaneminn að taka hann að sér fram í október þegar hann loksins má koma til okkar. Við söknum litlu hnetunnar svooooo mikið!

Saturday, August 13, 2011

Frognerseteret - Grönland - Lilleborgbanen

Fallegur laugardagur sem byrjaði á því að eiginmaðurinn stökk út og greip eina svona með heim......nammi namm sem morgunkaffið var gott :)

Skelltum okkur með T-bananum upp á Frognerseteret og fengum okkur hressingu á meðan við skoðuðum útsýnið. Þegar við komum að veitingastaðnum/útsýnisstaðnum bar þar að nýgift hjón á sama tíma..........lovely. Frognerseteret er í 435m hæð yfir sjávarmáli og fallegt að horfa niður á borgina og út Oslófjörðinn.
Bláberjavanillucupcake

T-baninn til baka og nú niður á Grönland en sonurinn vildi láta klippa sig og við vorum búin að sjá þennan gaur nokkrum sinnum á hlaupum í gegnum Grönland þegar við vorum á leið á Skatt-Öst að reyna að skrá okkur inn í landið. Klippingin á indverjanum var þó ekki það sem fékk okkur til að velja staðinn - heldur sú staðreynd að það var engin röð! T ætlar allavega aftur til þessa gaurs því hann setti svo vel-lyktandi gel í hárið á honum ;).

Lentum óvart á flóamarkaði á Grönland - og þeir sem þekkja frúna vita að það fannst henni EKKI leiðinlegt. Kom heim með fallega skál - en ekki hvað :). Eiginmaðurinn og T voru þó vissir um að ég yrði barin þarna fyrir að taka myndir.....váh....rólegir!
 

Þá var það hverfið sem við ætlum að búa í. Fundum auðveldlega húsið og sáum okkur til mikillar gremju að það er nákvæmlega ekkert fararsnið á íbúunum. Okkur var lofað 15.ágúst - það er ekki að fara að gerast. Okkur var lofað 1.september - það er ekki að fara að gerast. Í síðasta lagi 1.október er okkur lofað.......eitt er víst að ef íbúðin losnar ekki þá, þá leigjum við í hverfinu sem við búum í núna tímabundið og hana nú.
 

Eldhúsglugginn okkar og veröndin sem enginn notar nema þessi íbúð - ekki leiðinlegt það.
  

Stoppuðum við Lilleborgbanen og þar fóru eiginmaðurinn og T í 18 holu minigolf. Þetta er sniðugur garður þar sem eru 4 strandblakvellir (2 stórir og 2 litlir), tvær körfuboltakörfur, tvö fótboltamörk, líkamsræktartæki (svona útidót), þrjú borðtennisborð, minigolf og 27m langur veggur til að spreyja á. Þarna voru margir ungir menn að spreyja listaverk á meðan við vorum þarna. Við eigum pottþétt eftir að nota þennan "leikvöll" oft.
 


Sæti gaurinn nýklipptur

Gustav Vigelands Sinnataggen

Sólin skein á okkur í dag (föstudag) og því skelltum við okkur í göngutúr niður í miðbæ með viðkomu í nokkrum verslunum - hei við erum í sumarfríi sko ;). Fékk mér kaffi á uppáhaldskaffikeðjunni minni

Kíktum fyrir utan Dómkirkjuna en þar er þvílíkt blómahaf vegna atburðanna sem áttu sér stað í síðasta mánuði.

Seinnipartinn skelltum við okkur í Vigelandsparken (Frognerparken) með öllara, teppi og bolta. Fallegur risagarður og tilvalið að liggja þar á teppi og láta sólina verma kroppinn.

Og að sjálfsögðu er enginn föstudagur án ZUMBA. En frúin keypti sér Zumbaleik í Wii og var heldur betur tekið á því fyrir framan skjáinn ;). T keypti sér líka tónlistarleik í Wii og síðan hefur tónlistin ekki stoppað hér í íbúðinni. Hann spilar og spilar á fiðlu og trommur og básúnur og gítara og býr til endalaust af tónlist. Fyndið samt hvað hann sækir miklu meira í klassísku tónlistina en hina og vill helst hafa hljómsveit þegar hann er að spila og velur þá oftast Hörpuna til að spila í ;)


Thursday, August 11, 2011

Ida

Í dag fórum við mæðginin með T-bananum til Tøyen og heimsóttum Zoologisk Museum. Þar var að finna hana Idu sem er elsti apasteingervingur í heimi. Ponsulítil og sæt...ef það er hægt að segja svoleiðis um flatan steingerving. Annars voru öll dýrin uppstoppuð og við lásum heilan helling um dýrin. Sumt vissi nú drengurinn enda ágætlega lesinn og hefur greinilega lært eitthvað í skólanum ;). Ég tók mynd af T við risastóran uppstoppaðan björn og að sjálfsögðu lokuðu þeir báðir augunum!

Seinnipartinn skelltum við okkur í stutta ferð með trikkinum (nenntum ekki að rölta og svo finnst T að við eigum að nota mánaðarkortin fyrst við eigum þau hehe)


Til að hitta þennan eftir vinnu en við tókum röltið á Akersbrygge og fengum okkur svo að borða. Kjerlingin fékk loks norskt símanr eins og hún vildi.....nauðsynlegt að það byrji á 9 :).



Annars byrjaði ég á nýju verkefni í gær - svona rétt fyrir skólabyrjun. Er að sauma út ponsu mynd sem verður nú líklega lokið um helgina. Er allavega komin miklu lengra en myndin sýnir (eða sko búin með stafina og trjágreinarnar).


Hérna er svo mynd sem ég tók í biðskýlinu á Akersbrygge í kvöld - en ég merkti inn á myndina það helsta sem tengist okkur í augnablikinu. T er þó ekki búinn að fá inni í skóla ennþá en hann tilheyrir þessum skóla núna og því er eðlilegast að þeir taki við honum....punktur! Svo er stríðið um móttökubekk og það allt saman eftir. Búin að sækja um þennan skóla á netinu og nú er bara að bíða fram á mánudag og athuga hvort þeir hafi ekki samband. Svo sjáum við til þegar við fáum íbúðina hvort hann taki strætó á hverjum morgni eða skipti um skóla......



Frumburðurinn kominn heim af sjúkrahúsinu með sýklalyf í töfluformi og rúmliggjandi í heila viku. Óska tengdaforeldrunum alls hins besta í hjúkrunarstörfunum næstu viku!

Wednesday, August 10, 2011

Hugsa til þín elsku sonur

Í dag er hundleiðinlegt veður, rigning og þá erum við að tala um RIGNINGU. Þannig að í dag fengum við tækifæri til að nota bæði Ilse og regnhlífar :). Svei mér þá ef T framkallar ekki bara smá bros á myndinni en hann hyggur á flutninga aftur til Íslands........er sem sagt ekki aaalveg að fíla aðstæðurnar....hmmmmm!

Skelltum okkur í smá bollakökubakstur enda pössuðum við okkur á því að uppskriftabókin góða, Bollakökur Rikku, færi nú ekki með í gáminn.

Bounty bollakökur

Kaffi bollakökur

Ég fjárfesti svo í einu svona dóti í gær

Til þess að geta búið mér til svona á hverjum morgni ;)

En mest af öllu sakna ég frumburðarins í dag. Hann fór í aðgerð í morgun og átti að fá að fara heim á hádegi. Eftir aðgerðina var hins vegar ákveðið að hann yrði lagður inn í sólarhring með sýklalyf í æð. Hann er því staddur þessa stundina á LSH og ég þakka fyrir gsm-síma en við getum verið í stöðugu sambandi við hann.

Mest af öllu hefði ég þó viljað vera á staðnum í eigin persónu!