Thursday, March 29, 2012

ég óska mér

Ég óska mér að verða gömul. Jebb mig langar að verða gömul eins og amma mín og nafna. Þegar ég verð gömul ætla ég að verða nákvæmlega eins og hún. Ég ætla að vera lítil með hvítt hár, alltaf í góðu skapi þó ég muni ekki lengur allt og gleymi nánast öllu. Alltaf hlæjandi og flissandi og ég ætla að elska súkkulaði og sælgæti alveg eins og hún amma mín.

Í dag skrapp ég í göngutúr heiman frá mér yfir á Bogstadveien sem er flott verslunargata hérna í Osló. Ég bjó við þessa verslunargötu fyrstu 2 mánuðina mína hérna í borginni. Ég var svo heppin að fá mömmu og O og mágkonu hennar mömmu IL í heimsókn um miðjan mars og þegar við fórum í H&M fengum við 50nok gjafakort í hvert skipti sem við versluðum. Ég átti því 4 gjafakort í dag eða 200nok til að eyða í H&M. Ekki leiðinlegt það.
Þegar ég var á  heimleið kom ég við í fallegustu skóbúðinni í bænum, Lille Vinkel Sko. Í þessari búð er hægt að finna skó frá Chie Mihara - sem ég elska. Á undan mér inn í búðina fór gömul hvíthærð kona með göngugrind. Ég hugsaði að þetta gæti verið ég þegar ég er orðin gömul. Ein af afgreiðslustúlkunum hélt dyrunum opnum fyrir gömlu konunni en gleymdi að segja henni að það væri eitt þrep niður.... Konan lenti kylliflöt á gólfinu með hnéð fyrst og svo hnakkann í gólfið. Blóð út um allt. Váh hvað það getur blætt mikið úr hnénu á svona gamalli konu. Hausinn slapp við gat en mikið ofsalega átti gamla konan bágt. Hún vissi ekkert hvar hún var og var greinilega vönkuð. Það liðu ekki 3 mínútur og þá var sjúkrabíllinn mættur á staðinn........ Eftir þetta fór ég að hugsa. Þegar ég hugsa um að verða gömul þá gleymi ég alltaf að hugsa að ég get verið ógurlegur hrakfallabálkur....jebb....ég hef í alvörunni legið kylliflöt oft og mörgum sinnum og þá yfirleitt vegna skófatnaðar......hmmmmm....ég ætla samt innilega að vona að ég komi ekki til með að detta svona í fallegri skóbúð hátt á níræðis aldri!

Skellti í nokkrar mini bollakökur þegar ég kom heim úr bæjarferðinni og bakaði bláberjakökur með bláberjakremi. Mmmmmm þessi samsetning er alveg að virka.


Við erum í teppagírnum þessa dagana. Keyptum teppi inn í stofu og það er 100% vistvænt sem mér finnst alls ekki svo galið (eins og þið kannski eruð búin að reikna út). Við gerum okkur grein fyrir því að það hefði verið miklu betra að hafa keypt það aðeins fyrr þegar mínusgráðurnar voru jafnmargar inni og úti í vetur ehemmm. En í staðinn verður bara enn hlýrra næsta vetur. Það er þó einn sem er mest ánægður með nýja teppið og átti erfitt með að bíða eftir að það var komið á réttan stað.


Enginn fótbolti í sjónvarpinu mínu í kvöld - er farin að glápa á sápurnar.

Monday, March 26, 2012

dagarnir líða

Heilmikið búið að gerast síðan í Kína - eiginlega svo mikið að ég bara hreinlega man það ekki ehemm! Ég skrapp í húsmæðraorlof (og kynningarstarf vegna bókarinnar) til Stavanger í vikunni. Það var svo gott að knúsa vinkonu mína og svo fékk ég kynningu á borginni - ekta áfangi Stavanger0313 fyrir framhaldsnemendur.... Litla systir átti afmæli um helgina og ég saumaði handa henni afmæliskort og sendi til Barcelona í síðustu viku.

Í pakkanum var líka m.a. sæt chilisulta sem ég afrekaði að búa til í þarsíðustu viku en miðana á sultuglösunum fékk ég einmitt frá sætu systur í afmælisgjöf í fyrra.


Við skelltum okkur í Grünerløkka á laugardaginn af því mig "vantaði nauðsynlega" mottu undir eldhúsborðið og eiginlega hefði hún þurft að koma í vetur þegar ég var að frjósa á tásunum.....í staðinn frýs ég ekki á tásunum næsta vetur. Keypti stóra House Doctor mottu og var ótrúlega heppin að hún var BARA til í bleiku.

Á leiðinni í mottuleiðangurinn varð ég fyrir þessu kertahúsi. Það hreinlega henti sér í andlitið á mér og ég kunni bara ekki við annað en að taka það með heim - var á fáránlegu tilboði sem var "alls ekki" hægt að sleppa. 

Ég réðist svo í framkvæmdir í dag en það hefur legið fyrir í nokkurn tíma að ég ætla að búa til borð úr júrópalla. Fann einn fyrir einhverjum mánuðum síðan hérna fyrir utan og dró draslið heim yfir snjóskaflana en hann er búinn að þorna vel og vandlega síðan þá. Í dag skellti ég svo sandpappír á viðinn og grunnaði með hvítum. Svo er bara að velja lit og henda hjólum undir. Hef ætlað að búa svona til í mörg ár og núna er tækifærið.




Annars hefur aðeins verið bakað hérna og í gær var t.d. stóri vöffludagurinn í Noregi. TAE (nr.30) skellti sér á einn fótboltaleik og liðið hans vann 3-0. Alltaf gaman þegar vel gengur í boltanum.


Ég steikti pönnukökur í tilefni sumartímans og við dekkuðum borð úti á veröndinni okkar. Hlakka til að eyða meiri tíma þar í sumar. Eru þið kannski að spá í að koma í heimsókn?


Rjómaleginn Kófú

Núna er það bara afslöppun næstu kvöld með prjónana en það er víst kominn tími á peysu fyrir mig og ég fitjaði upp á henni í gærkvöld.

Sunday, March 11, 2012

Sjanghæ - 4. og síðasti hluti

Næst síðasta daginn okkar í Shanghai fórum við á hótelbar sem var á 32. hæð. Flott útsýni (sérstaklega fyrir þá sem eru ekki lofthræddir). Á leiðinni niður fórum við með lyftu sem var UTAN á húsinu - já sæll - það voru naglaför eftir mig innan á lyftunni....
Við kíktum í skemmtilegt hof sem var inni í miðri borginni. Endalausar mótsagnir í byggingarstíl.










Við fórum líka á safnið Urban Planning en þar gátum við séð skipulagið á borginni, hvað er búið að gera og hvað er á framkvæmdarlistanum. Fleiri hundruð fermetrar af litlum líkönum af húsunum í borginni. Verkfræðingnum fannst þetta nú ekki leiðinlegt og reyndar ekki mér heldur. Þarna var líka skemmtileg vídeóhorn og skipstjórahermir. Skemmtilegt safn sem við mælum hiklaust með.....sko ef þið eigið leið um Shanghai.






Í stórum garði við hliðina á þessu safni er Wedding Market á laugardagsmorgnum. Þar koma foreldrar saman með myndir og upplýsingar af börnunum sínum til að leita að framtíðar mökum. Unga fólkið vinnur svo mikið að það hefur ekki tíma til að fara á stefnumót og finna sér maka. Aldraðir foreldrarnir sjá þá um að reyna að finna makann. Og trúið mér - það var allt TROÐFULLT þarna.



Peking önd varð svo fyrir valinu síðasta daginn. Vel þess virði nammi namm. Við borðuðum nánast eingöngu kínverskan mat á ferðalaginu okkar. Við smökkuðum mat frá ýmsum héröðum í Kína og næsta nágrenni, fengum aldrei í magann og eigum aðeins góðar minningar úr ferðinni. Það var sannarlega gott og gaman að fá að njóta samvista við vinkonu mína og ég vildi svo innilega óska að við byggjum aðeins nær hvor annarri. Það er eiginlega alveg kominn tími á það!

Tuesday, March 6, 2012

Sjanghæ - 3.hluti

Á hverjum degi sáum við helling af fólki. Það búa 23 milljónir manna í Sjanghæ. Það er nú alveg ágætis fjöldi - svona í óspurðum! Eins mikið og mig langaði að taka myndir af gaurum sem voru á hjóli með lifandi endur í körfunni framan á hjólinu (kvöldmaturinn), 100 tóma vatnsdunka reirða saman aftan á hjólinu, þannig að hvorki sást í hjól né ökumann - eða gaurnum sem hjólaði með 20 pappakassa fulla af drasli, alla reirða saman aftan á hjólinu hans og einn lítill kínverji sat með krosslagðar fætur OFAN á kössunum á meðan gaurinn hjólaði.........þá varð ekkert af þeim myndatökum. Ástæðan einfaldlega sú að ég var í aftursætinu á bíl, með lífið í lúkunum og missti af öllum tækifærunum (jebb umferðarljós og gangbrautir eru bara til leiðbeiningar í Sjanghæ - óþarfi að fara eftir reglum og lögum). En minningin lifir í hausnum.
Við fórum á fullt af "svartamörkuðum" eins og grunnskólanemandinn á heimilinu myndi orða það. Fleiri þúsund fermetrar af feik dóti út í eitt - þeim er í alvörunni ekkert heilagt þegar kemur að framleiðslu á fatnaði, fylgihlutum og drasli almennt. Ég tók heldur ekki myndir á þessum efnamörkuðum og dótamörkuðum. Ég einfaldlega fattaði það ekki.
En við fórum á skemmtilegan "antik"útimarkað og versluðum styttur, tafl og lítinn rauðan búdda.





Einn daginn keyrðum við út fyrir borgina í u.þ.b. klukkutíma og komum þá í aðra borg, öllu minni og lágreistari en Sjanghæ. Í gegnum borgina var eins konar síki þar sem við sáum skolpið leka í vatnið, fólk þrífa grænmeti upp úr sama vatni, vaska upp og henda matarafgöngum í sama vatn. Sá engan þvo þvott í vatninu - en hver veit?












Annan dag fórum við upp í hæstu byggingu í Sjanghæ sem er í laginu eins og upptakari - Shanghai World Financial Center. Við borðuðum hádegismat á 92.hæð. Já takk fyrir nítugustu og annarri hæð. Fyrir utan það að fá illt í eyrun þegar lyftan fór upp þá fannst mér húsið vagga þegar ég steig út úr lyftunni. Eigum við að ræða lofthræðsluna - nei ég hélt ekki!




framhald.....