Monday, October 15, 2012

íbúðaráp


Í gær ákváðum við hjónin að það væri kominn tími til að skoða íbúðir í hverfinu sem við viljum allra helst búa í hérna í Osló. Við vorum að skoða íbúðir sem voru til sölu og þá aðallega til að sjá hvað fólk væri að fá fyrir peninginn og hversu stórt/lítið eru eiginlega 60 - 70fm. Ekki ætluðum við að bjóða í þessar eignir heldur ákváðum við hins vegar að skrá okkur á þar til gerðan lista í hverri íbúð en þá getur maður fylgst með hvað er verið að bjóða í íbúðina og á hvað hún selst að lokum. Auðvitað er gert ráð fyrir því að það séu aðeins þeir sem hafi áhuga á að bjóða sem skrifi sig á listann......en hei við erum útlendingar! Ég er því búin að vera í fullri vinnu í dag að fylgjast með boðum í þessar þrjár íbúðir og já takk fyrir þær eru allar seldar. Við klórum okkur bara í hausnum og veltum því fyrir okkur hvort það sé eitthvað að...........sko toppstykkinu!

Fyrsta íbúðin sem við skoðuðum var 66fm - alveg ágæt nema það var í rauninni ekkert eldhús......og ísskápurinn var í dvergastærð. Verðið á íbúðinni var sett 2.590.000 NOK. Hún seldist í dag á 3.300.000 NOK.

Önnur íbúðin sem við skoðuðum var 68fm - var ábyggilega einu sinni verslun og hefur verið opnað niður í kjallara og búin til íbúð úr geymslunum. Ekkert anddyri bara vaðið beint inn í eldhús. Búið var að reyna að selja þessa íbúð áður í ágúst en þá var vatnsskaði og boðið sem kom í hana var of lágt að mati eiganda. Vatnsskaðann var búið að laga núna og á íbúðina var sett 2.590.000 NOK. Íbúðin seldist áðan á 2.500.000 NOK en það er mjög óvanalegt að íbúðir í þessu hverfi fari undir uppsettu verði. Það var nokkuð ljóst þegar við skoðuðum hana að frágangurinn var ekki í lagi.

Þriðja íbúðin sem við skoðuðum var 40fm - var einu sinni lítil verslun en núna ofsalega sæt lítil eins manns íbúð (ok kannski roooosalega ástfangið par gæti hæglega búið þarna). Á þessa íbúð var sett 1.900.000 NOK og hún fór áðan á 2.550.000 NOK.

Hérna er hægt að umreikna í íslenskar krónur (fyrir þá sem vilja).

Tuesday, October 9, 2012

með grein í rassinum

Veðrið í dag  er yndislegt, það er pínu kalt - en samt ekki, sólin skín á næstum heiðskírum himni og haustlitirnir skarta sínu fegursta. Ég var að ljúka við nýju lopapeysuna mína sem er ekki alveg hefðbundin - æi hver vill alltaf þetta hefðbundna hvort sem er?
Í tilefni dagsins skelltum við okkur í göngutúr í hverfinu, þ.e.a.s. ég og gleraugnaætan. Ég þurfti að sinna smá erindi og gleraugnaætan beið samviskusamlega bundin fyrir framan verslunina. Þegar ég kom út var gleraugnaætan eðli sínu samkvæmt afskaplega glöð og ánægð að sjá mig. Við töltum af stað og fundum lítinn garð með lítilli flöt og bekk til að sitja á. Þar sem ég stóð og var að laga heimaprjónaða vettlinginn minn hugsandi sem svo að ég ætlaði að skunda yfir á næsta kaffihús, kaupa einn vænan latte og koma til baka, setjast á bekkinn og leyfa gleraugnaætunni að þefa út í loftið...........sá hundkvikindið (lesist elsku litli sæti hundurinn minn milli samanbitinna tannanna) kött. Allt í einu - upp úr þurru missti ég vettlinginn og ólina og kvikindið var horfið inn í runna geltandi eins og vitleysingur og það var ekki séns að þessi geltandi vitleysingur ætlaði að koma af sjálfsdáðum út úr runnanum - enda kisan uppi í tré og hann á fullu að reyna að ná í kattarófétið.
Köttur uppi í tré

Þéttur runni með þyrnum og öllum pakkanum!

Skemst frá því að segja að við erum komin heim með grein í rassinum og laufblöð í hárinu og nýju peysunni, lepjandi heimalagaðan latte úr glasi. Hefði gjarnan viljað nefna það líka að gleraugnaætan gekk við hæl eins og engill á leiðinni heim.......en þá væri ég að ljúga!


Studdist við tölur úr þessari uppskrift hér.


Saturday, September 15, 2012

laugardagur í Osló

Elska laugardaga. Ekkert stress. Enginn að fara eitt né neitt. Allir bara í góðum gír allan daginn. Elskedda - NÚNA erum við að tala saman.

Bokfestival á Karl Johan


Ben & Jerry's klikka seint

Latte og bókin Jean Muir: Beyond Fashion

Unglingurinn

Glimmerkjóll úr Fretex sem verður að nýju ævintýri
á morgun eða hinn


Rauðvín, nautakjöt og parmesankartöflur

Monday, September 10, 2012

holan djúpa

Í ræktinni minni (nei ég lofa - þessi bloggfærsla er ekki um ræktina) eru aðallega karlmenn á neðri hæðinni (þar sem ég æfi líka). Sumir þeirra eru steratröll og aðrir wonnabí steratröll. Ég hef EINU sinni, á undanförnum 5 vikum, hitt konu þarna niðri og hún stoppaði stutt við. Í morgun var hinsvegar hún OLGA mætt í öllu sínu veldi. Hún var þó ekki með belti um sig miðja (hefur ábyggilega gleymt því heima) en hún rústaði þarna hverri stönginni og lóðum eins og hendi væri veifað. Í laumi dáðist ég að henni, þ.e. hvað hún væri sterk þrátt fyrir augljósa eigin þyngd. Á leiðinni heim áttaði ég mig svo á því að hún var bara að taka nokkrum kílóum þyngra en ég.......huh.....Olga hvað!

Um daginn sá ég hrikalega skemmtilega atvinnuauglýsingu sem fangaði mig alveg niður í tær og til baka aftur. Stórt spennandi garnfyrirtæki hér í Osló var að auglýsa eftir fólki til að aðstoða hönnuði. Eftir að hafa lesið auglýsinguna í þaula ákvað ég að demba mér út í djúpu laugina og sækja um, enda hef ég nákvæmlega allt til brunns að bera að vera ráðin í þessa vinnu - allavega samkvæmt þeim tilmælum sem voru í auglýsingunni. Ég sendi því inn öðruvísi umsókn, 15x15cm og átti m.a. pínulitla plastmöppu fyrir prófskírteinið.


Ég var því nokkuð sjálfsörugg þegar ég fór með umsóknina á staðinn og skilaði henni á næstsíðasta degi umsóknarfrests. Ég datt hins vegar ofan í RISA stóra holu á þriðjudaginn (4 dögum eftir skilafrest) þegar garnrisinn (á facebook) hvetur fólk eindregið til að sækja um starfið og enginn frestur gefinn upp. Holan var svo djúp að ég á fullt í fangi með að reyna að komast upp úr henni....finnst ég svolítið renna til á moldarhliðunum!
Þegar ég stóð undir sturtunni áðan kviknaði hinsvegar ljós í kollinum.....alveg skínandi bjart. Þessi holutilfinning kemur á þessum tíma á hverju ári og hefur gert undanfarin 4 ár. Alltaf um mánaðarmótin ágúst/september og varir fram í miðjan október. Fyrir fjórum árum veiktist pabbi og dó langt fyrir aldur fram. Ég sakna hans óendanlega mikið. Mig vantar nefnilega aðeins að tala við hann, bara smá, ekki lengi, bara smá.
Í dag ætla ég að leyfa mér að sakna hans mikið. Ég ætla að grenja úr mér augun og fá ekka. Nýti kannski tækifærið og hlamma mér í sófann, poppa og horfi á sorglega mynd......eða kannski er tími til  kominn að pakka upp úr skókassanum og taka árlega seríuáhorfið "Sex and the city"

Á morgun kemur nýr dagur og þá kannski lýk ég við einhver hálsmen og finn út hvar ég ætla að selja þau. Hugsa að ég endi á Etsy nema aðrir skjóti að mér skemmtilegri sölustöðum.



Wednesday, August 8, 2012

ræktin og ie

Það er ekkert launungarmál að ég spái í heilsuna. Mér er annt um heilsuna en er kannski ekkert endilega að eeeelska líkamann minn. Ég tók þá ákvörðun að ég þyrfti að fara að festa ákveðna hluta af líkamanum áður en þeir færu að hanga of mikið. Þannig að enn og aftur í mínu lífi hef ég keypt kort í ræktina (úti á horni 199 nkr á mánuði). Ég ætla samt ekkert að blogga um aðferðirnar í ræktinni - enda er það hundleiðinlegt fyrir aðra að lesa - þó ég gæti auðvitað mært sjálfa mig í bak og fyrir, þar sem ég þekki engan í ræktinni minni og því ein til frásagnar um það hversu óskaplega dugleg ég er.....

Brómber og hindber í Danmörku

Mánudagur í ræktinni: Mætti í íþróttaskónum og las á stórt skilti sem tilkynnti að það mætti ekki nota útiskó inni.....læddist inn á skónum.

Þriðjudagur í ræktinni: Mætti í rauðu froskaskónum og skildi þá eftir frammi á gangi. Fór inn og reimaði sigursæl á mig íþróttaskóna (þá sömu og í gær). Þegar ég var á leið út hélt ég á símanum og vatnsflösku. Þurfti að beygja mig til að fara úr íþróttaskónum og í leiðinni helltist úr vatnsflöskunni ofan í skó á ganginum. Ekki mína skó.......heldur hvíta Converse skó sem einhver gaurinn á. Mér varð svo mikið um að ég hélt áfram að hella í skóna og þegar ég fór út var hálf sundlaug í öðrum hvíta skónum.....

Miðvikudagur í ræktinni: Mætti í rauðu froskaskónum og skildi þá eftir frammi á gangi. Fór inn og reimaði á mig sömu íþróttaskó og áður. Fór í lóðasalinn þar sem steratröllin eru og hóf mínar æfingar. Fannst vera horft aðeins of mikið á mig og hélt ég væri að gera einhverja tóma vitleysu. Leit þá í fyrsta skipti í spegil.....get alveg lofað því að H&M íþróttabrjóstahaldarinn og bleiki adidas þurrsmartbolurinn eru GEGNSÆ. Lauk mínum æfingum með geirvörturnar út um allt og rauk heim á íþróttaskónum. Þurfti að mæta aftur í ræktina tæpum klukkutíma síðar til að ná í rauðu froskaskóna....þegar ég mundi eftir því að ég hafði jú mætt í þeim.

Rauðu froskaskórnir

Og í dag lauk máli mínu við ferðaskrifstofu IE. Ég á sem sagt rétt á bótum fyrir þá ósvífni þeirra að skila mér og syninum ekki á réttan stað eins og ég segi frá m.a. hér. Nú þarf ég sjálf að fara fram á það við IE að þeir borgi mér skaðabætur - og þá ætlast ég til að þeir greiði syni mínum líka bætur. Verður gaman að sjá hvernig það fer allt saman. En skaðabæturnar eru 400 evrur skv. lögum Flugmálastjórnar. Fékk sendan email rétt áðan með úrskurði Flugmálastjórnar og hoppaði og klappaði eins og mér einni er lagið :)

P.s. Datt í hug rétt í þessu að kannski hafi þetta verið gaurinn sem átti hvítu Converse skóna sem glápti svona á mig í ræktinni.........

Tuesday, July 17, 2012

allt í gangi

Ferðalögum engan veginn lokið þetta sumarið. Ítalía var stórkostleg og Frú Galin ferðafélagi minn sú allra besta (átti nú ekki von á öðru). Svei mér þá ef ég saknaði hennar ekki bara fyrstu dagana eftir að við komum heim. Ísland var alveg jafn dásamlegt og áður og sólríkt með eindæmum. Stefnan tekin á Gautaborg á morgun og jafnvel Kaupmannahöfn á föstudag. Kannski sólin fari að láta sjá sig almennilega hérna á hinum Norðurlöndunum takk fyrir! Líðum þó ekki D-vítamínskort eftir veruna í sólinni á Íslandinu góða og svei mér þá ef sú gula lét ekki bara sjá sig í augnablik og andartak í dag hér í Osló.

Skrifaði undir samning við danska forlagið Mellemgaard á meðan ég var á Íslandi í byrjun júlí. Þarf bara að skrifa það enn og aftur því ég á ennþá erfitt með að trúa því að þetta hafi orðið að veruleika. Undarleg tilfinning að ég nái að gefa bókina út í Danmörku á þessu ári líka.... Stressuð - kannski örlítið!  Annars er ég komin með ljósmyndara fyrir nýju bókina þannig að núna þarf ég að setja í túrbógírinn og ljúka við hlutina sem eiga að fara í myndatöku - allt í gangi, svei mér þá.

Fann annars skemmtilegt pils í Rauðakrossbúðinni á Laugaveginum og breytti því á meðan ég var á Íslandi. Pilsið varð að ótrúlega sætum bol/blússu. Ætla jafnvel aðeins að breyta meira, kemur í ljós.

Pils með áföstu undirpilsi og rennilás á hliðinni
(já já ekki besta myndataka í heimi)

Bolur/blússa

Bjó til þessa rosalegu ostaköku fyrir matarboð um daginn. Bláber, jarðarber, hindber.....mmmmm BARA gómsæt kaka. Fann uppskriftina hjá bloggvinkonu minni hér. Notaði glútenlausar kremkexkökur í staðinn fyrir oreokökur - held að enginn sem borðaði kökuna hafi liðið glútenskort!


Tuesday, June 12, 2012

fjórar vikur

Undanfarin ár hef ég verið þreytt. Jebb, bara mjög þreytt. Samt alltaf á iði enda klárlega með einhverjar skemmtilegar greiningar (ef ég myndi vilja komast að því). Mér hefur verið illt í öllum liðum og vöðvum. Fundið extra mikið til þegar eitthvað hefur komið við mig...átt erfitt með að beygja fingur og liði á morgnanna. Erfitt að fara fram úr vegna verkja á morgnanna og erfitt að standa upp úr sófanum eftir glápið eða hvíldina. Í mörg ár er ég búin að vera í rúmlega 100% krefjandi vinnu + aukavinnu - alltaf. Læknar hafa mælt með járn og blóðaukandi töflum þar sem ég hef verið langt undir öllum eðlilegum og óeðlilegum mörkum í blóðprufum. Ég hef alltaf verið með einhverskonar útbrot í andlitinu - hálfgerðar unglingabólur (frekar pirrandi fyrir konu á þessum aldri ehemmm). Í vetur hef ég verið starfandi heima við ritstörf og sjálfsræktun. Verkir fóru samt ekki, þó ég væri ekki í yfir 100% vinnu + annarri vinnu!
Fyrir rúmum fjórum vikum síðan ákvað ég að gera einfalda tilraun. Kannski flókna fyrir suma - en einfalda fyrir mig. Tilraunin fólst í því að taka glúten úr matnum mínum. Ekkert flókið - bara út með glúten punktur basta. Það er til kex, hveiti, brauð, pasta, snakk og nammi sem er ekki með glúteni. Það er meira að segja til bjór með engu glúteni. Þannig að þetta er í raun ekki mikið mál. Tilraunin var gerð að vel athuguðu máli þar sem ég var búin að lesa og lesa og lesa og ..... lesa allskonar greinar og rannsóknir. Algengasta merki um glútenóþol er niðurgangur....EN það er ekki EINA merkið um glútenóþol. Og þá er það sagt. Þeir sem eru með glútenóþol fá alveg jafn mikinn útblásinn/uppþembdan maga af speltbrauði eins og hveitibrauði - jebbs.

Glútenfría heimabakaða brauðið mitt
sem var að koma úr ofninum.

BakeFri er eina glútenlausa bakaríið í Osló
- en hei - það er glútenlaust og gott :D


Niðurstöður 4. vikna tilraunar:
útþaninn magi = hætt
tregur magi = hætt
"unglingabólur" = horfnar
roði í andliti = minnkað
verkir í fingrum á morgnanna = veruleg minnkun (er enn að dást að þessu á morgnanna)
verkir í fingrum seinnipart og á kvöldin = veruleg minnkun
verkir í liðum = veruleg minnkun
verkir í vöðvum eftir gönguferð/skokk = hætt
þreyta = veruleg minnkun
upptaka járns = frábær
kílóafjöldi = sá sami
hæð í sm = sá sami

Heildarniðurstaða:
glúten er ekki fyrir mig
- og vinir/fjölskylda ekki hafa áhyggjur, ég
hef bara með mér nesti í poka ef ég held að ég komi til með að
svelta í afmælum/matarboðum hehe

Eftir 6 daga er ég að fara í 8 daga ferðalag með Frú Galin. Fyrst verð ég ein í heilan dag í Mílanó á meðan ég bíð eftir gönguhópnum frá Íslandi. Við erum að fara að ganga um í sælkeralandi Toscana, læra að búa til jurtasmyrsl og njóta þess að vera í stelpufríi. Ég ætla að fara með fluglestinni inn í miðborg Mílanó og skoða m.a. dómkirkjuna, Scala óperuna, allar flottu rándýru verslanirnar í gullhverfinu, fá mér aperitivo og snúa mér í hringi á nautshreðjunum....tjah bara svona á meðan ég er að hanga og bíða eftir hópnum, enda ekkert vit í því að hanga í 11 tíma á flugvellinum og bíða. Ég hef farið nokkrum sinnum inn í miðborg Mílanó og er því alls óhrædd með að hanga þar í heilan dag. Það væri þó óneitanlega skemmtilegra að hafa einhvern til að hanga með.
Það sem vefst hinsvegar fyrir mér er sú staðreynd að ég er að pakka fyrir ferðalag sem varir í fjórar vikur. Ég fer til Íslands frá Ítalíu og lendi ekki aftur í Noregi fyrr en nákvæmlega fjórum vikum eftir að ég legg af stað þaðan. Fyrir Ítalíuferðina þarf ég gönguskó og göngufatnað, íþróttafatnað og þunnan fatnað. Fyrir Ísland þarf ég þykkari fatnað, pæjuskó, pæjuföt, föt fyrir eina fermingu og eitt brúðkaup. Hvað má maður aftur ferðast með mörg kíló.......fjúffff?

Búin að sauma sumarhattinn fyrir Toscanaferðina og svo komu
léttu gönguskórnir með pósti í gær frá UK.

Friday, June 1, 2012

glúten

Búin að endurheimta eiginmanninn frá Íslandi. Hann skellti sér til Íslands í viku og fór m.a. í flotta vinnuferð til Aðalvíkur. Kom endurnærður heim, alsæll með ferðina. Mamma kom til okkar (mín og strákanna) um helgina og við fengum frábært veður allan tímann sem hún tók svo með sér aftur til Íslands. Verði ykkur að góðu. Við áttum góðan tíma saman um helgina, fórum m.a. í bæinn, á kaffihús, út að borða, sátum í sólinni úti á verönd, fórum í sólbað úti í garði, horfðum á fótboltaleik..... Mamma gaf mér þessa fallegu hálsfesti eftir Hlín Reykdal - þvílík fegurð. Takk takk takk elsku mamma mín.


17 dagar og þá flýg ég ein til Mílanó. Þarf að hanga þar í 10 klukkutíma þangað til restin af gönguhópnum kemur. Jebb. Júní er mættur og ég er að fara í stelpuferðina mína til Toscana. Eins og ég skrifaði í pistli hér í lok síðasta árs þá vissi ég að á þessum tímapunkti myndi ég sjá eftir því að hafa ekki æft fyrir ferðina. Sá tímapunktur er sem sagt kominn. Ég þekki sjálfa mig svooo vel....hehe. Ég er samt tilbúin í hausnum að fara af stað og neibb sé ekki eftir því að hafa ekki æft stíft. Kannski sé ég eftir því á meðan ég er að ganga, en ég er nú ekki að hafa áhyggjur af því núna. Á eftir að redda mér nokkrum hlutum til fararinnar og á pottþétt eftir að sleppa því að kaupa létta gönguskó....af því ég á eftir að gleyma því of lengi og svo bara vúpsí er komið að ferðadegi...hmmmm!

Undanfarnar 3 vikur hef ég verið á glútenlausu fæði. Tilraunaverkefni þar sem ég hef verið að reyna að finna leið til að hætta að vera svona þreytt og illt í öllum liðum og vöðvum. Járnleysið hefur lítið batnað síðan í janúar (þegar ég náði sögulegu lágmarki í járnbúskap) þrátt fyrir að hafa tekið tvöfaldan skammt af járni frá því í janúar. Fyrir viku síðan ákvað ég að minnka járnskammtinn í einfaldan því - jebbs - mér líður miklu betur. Ég er ekki stíf og stirð eftir göngutúrana, get staðið upprétt þegar ég fer á fætur á morgnanna (eða stend upp úr sófanum), get beygt fingur án verkja........ Tilraunin átti að vera til fjögurra vikna og ég er spennt að sjá hvernig heilsan er eftir eina viku (ábyggilega miklu miklu betri). Ég hef jafnvel verið að gæla við að fara út að skokka - en passa mig á að anda djúpt þegar ég fæ þá hugmynd, fá mér kaffisopa og gleyma svo hugmyndinni hahahahaha (vá hvað mér finnst leiðinlegt að hlaupa). En fyrir þá sem eru núna orðnir grænir af öfund af því þeir halda að ég sé orðin 1.74 og 90-60-90 þá geta þeir sömu andað léttar. Eins og áður hefur ekkert gramm ákveðið að yfirgefa minn frábæra líkama þrátt fyrir þessa skemmtilegu tilraun. Hinsvegar er ég pottþétt hrikalega holl að innan - allavega í smáþörmunum - því þeir eru farnir að taka járnið meira inn í systemið en áður - júhú.

En varðandi glútendæmið - það er glúten í öllu, eða þannig. Ekki vissi ég að það væri hægt að kaupa glútenlaust mjöl (hveiti) og glútenlaust pasta.....svei mér þá - það er bara allt til. Þar sem synirnir eru alltaf frekar skeptískir þegar kemur að matar- og kökugerð heimilisins (finnst þetta aðeins of hollt) og kalla allt speltmat (mjög hallærislegt að vera með speltmat - þó það sé ekkert spelti í matnum hehe) - þá eru þeir núna illa haldnir af því að allt verði glútenlaust á heimilinu (án þess að vita almennilega hvað glúten er).... Þessi blessuð börn.

Er annars alltaf að detta á skemmtilegar uppskriftir og í gær bjó ég til bountynammi sem fer beint í flokkinn með hrásnickerskökunni - namminamm. Uppskriftina fékk ég hér og nafna mín hún Elin er svo sannarlega með fullt af góðum og skemmtilega hollum uppskriftum.

Kakósmjör, lukuma, kakó, vanilla.

Kókosmjöl, sukrinmelis og kókosmjólk.




Ég átti afgang af súkkulaðinu og hellti því í konfektform og bætti
einni heslihnetu í hvert hólf.


Thursday, May 10, 2012

sjúk söfnunarárátta

Ég væri nú aldeilis gott efni í gaur með sjúklega söfnunaráráttu. Ef ég væri sá gaur þá ætti ég núna fulla íbúð af garni, efnaströngum, tölum, bókum, styttum, fötum, húsgögnum, tækjum og tólum. Jebb, það væri sjálfsagt ekki hægt að þverfóta fyrir öllu "sniðuga" dótinu sem ég finn á hverjum degi út um allt og hugsa....hmmmm þetta gæti nú verið sniðugt að búa til eitthvað úr - þ.e.a.s. ef ég tæki það allt saman með mér heim! Líklega nægði mér ekki íbúð - bóndagarður í eyði væri sjálfsagt bestur fyrir söfnunargaurinn.
Ég var nefnilega ekki alveg sanngjörn við sjálfa mig í naflaskoðuninni. Í vetur hef ég gengið rúmlega 900km, jebbs, rúmlega níuhundruð kílómetra. Mér finnst ekki gaman að hlaupa en ég ELSKA að ganga. Og ég geng úti á hverjum degi sama hvernig viðrar. Ég gekk meira að segja í janúar og febrúar þegar ég var sem verst af rassbrotinu - gekk bara aðeins hægar! Og stundum hef ég alveg hlaupið - mér finnst það bara svo afspyrnu leiðinlegt - og ég er alveg búin að hlaupa meira en 25 km frá áramótum........en ég nenni bara að muna eftir þessum 25 af því mér finnst þetta svo leiðinlegt. Og jú jú ég gerði alveg magaæfingar í janúar þangað til ég braut rassbeinið - þá var ég löglega afsökuð og svo hef ég bara ekki fundið tíma til að gera þær aftur eeehhh. Ekki það, ég hef svo sem allan tíma í heiminum, en mig langar bara miklu meira að eyða honum í eitthvað allt annað en magaæfingar.

Í fyrradag var ég sem sagt í einni kraftgöngunni og sá þá þennan kjól í glugganum á Fretex. Og ég er búin að vera að hugsa um hann síðan. Þannig að í morgun ákvað ég að fara aftur í göngutúr á sama stað og fara inn í búðina að kíkja á kjólinn. Yndislegt að vera svona ein heimavinnandi en ekki útivinnandi *hóst*........


Þarna inni eyddi ég dágóðum tíma. Það er nefnilega ódýrara í þessari búð en mörgum öðrum Fretex búðum sem ég hef farið í. Engin vond lykt og allt svo snyrtilegt og gott andrúmsloft. Ég kom nú ekki heim með kjólinn en ég kom heim með 5 hluti fyrir samtals 178kr. Nokkuð ljóst að ég þarf að fara að koma mér í vinnu eða skóla. Ó já ég sótti um skóla en gleymdi bara að senda fylgigögnin á réttum tíma og því fæ ég ekki inngöngu.......hmmmmmmm......sauður eða sauður?

Tréhálsmen (veit ekki alveg hvað ég ætla að gera við það)
Tréarmband sem ég ætla að nota, stendur á lítilli gylltri plötu LBVYR
Steina-armband sem ég ætla að nota

Eigum við að ræða þessa DJÚSÍ hekluðu hyrnu (og ekki úr ull)


Þetta pils rataði líka með heim - og já ég mátaði það í búðinni (máta annars ALDREI).
Ætla að stytta það ofan frá - ekki af því það passar ekki í mittið neinei
- heldur af því ég er svo lítil *hóst*

Tuesday, May 8, 2012

naflaskoðun

Bráðum er ég búin að vera heimavinnandi í heilt ár. Jebb HEILT ÁR. Það eru nú alveg nokkrir mánuðir í það samt. En heilt ár. Vá hvað tíminn líður hratt. Í vetur er ég sem sagt búin að vera í stöðugri naflaskoðun. Velta og snúa, hrista og strjúka - aðallega sjálfri mér. Niðurstaðan er einföld. Allra stærsti ókosturinn við mig er hæðin - eða smæðin.
Mér finnst enginn ókostur að vera með uppáskrifað PCO's (Fjölblöðrueggjastokkaheilkenni - sæll) og Hashimotos (eðal latur skjaldkirtill). Er löngu orðin vön því. En ég venst því seint að vera í KJÖRÞYNGD en bara heldur lágvaxin miðað við þá kjörþyngd!
Hausinn á mér er rosalega duglegur að segja mér að hendast út að hlaupa, lyfta lóðum, gera magaæfingar, plankaæfingar og hvað veit ég. Í raun hef ég kannski hlaupið 25 km síðan 1. janúar 2012. Ég hef sest tvisvar upp á hjólaskrímslið - og nei ég hjólaði ekki hringinn í kringum landið. Hef í alvörunni ekki gert eina magaæfingu né plankaæfingu síðan 1. janúar. Ég held nefnilega að hausinn viti líka að það er alveg sama hvað ég geri mikið af þessum æfingum - ég verð ekki hærri. Hausinn VEIT að ég er í kjörþyngd. Ég er eiginlega haldin reverse anorexia. Þegar ég lít í spegil sé ég bara megabeib. Verð því alltaf alveg kjaftstopp þegar ég sé myndir af mér (sem einhver myndaglaður þarf endilega að taka). En á myndunum sést greinilega að ég er of lágvaxin miðað við kjörþyngdina mína.

Auglýsi hér með eftir lengingaraðferðum - og þá ekki hárlengingaraðferðum - því ég nenni ekki megrunum. Ég er ágæt eins og ég er og ég borða 90% hollan mat (huh þarna var ég sko hreinskilin).

Kv.
Hobbitinn

P.s. Þetta er ekki þunglyndisblogg - í guðanna bænum ekki fara að peppa mig eitthvað upp - ég hækka ekkert við það. Farið frekar og eyðið tímanum í að finna upp lengingaraðferðir :D

Wednesday, April 18, 2012

Oslo þessa dagana

Það er svolítið óraunverulegt að vera íbúi í Osló í dag. Við búum inni í miðri Osló. Nógu nálægt til að geta gengið í miðbæinn en nógu langt í burtu frá þeim stað sem hryðjuverkamaðurinn sprengdi fyrir 9 mánuðum síðan - fer allt eftir því hvernig maður hugsar það - því í raun erum við að tala um einn og sama stað, þ.e. miðbæinn.

Þegar við fluttum hingað fyrir átta og hálfum mánuði síðan var samfélagið í miklu áfalli og undir miklu álagi vegna þessa manns. Skólaárið hjá þeim yngri byrjaði á því að teikna mynd á kort og skrifa fallega kveðju til þeirra sem létust og þeirra sem stóðu eftir sárir og þjáðir. Aðal áhyggjuefni drengsins var þá hvort honum yrði einhvern tíma sleppt, þ.e. hryðjuverkamanninum.
Þessa dagana er ungmennið í prófum í menntaskólanum sínum sem liggur við sömu götu og dómssalurinn. Á hverjum degi horfir hann á vopnaða lögreglumenn/hermenn og aragrúa af fréttamönnum sem standa fyrir utan dómshúsið. Þarna verða þeir næstu 10 vikurnar. Mér finnst þetta mjög óraunverulegt og fyrsta daginn (sl. mánudag) var ég með í maganum allan morguninn þangað til drengurinn kom heim úr fyrsta prófinu. Ég var hrædd um að einhver myndi reyna að sprengja eða skjóta eða hvað veit ég í kringum dómshúsið. Þetta er óraunveruleg staða.

Að öðru leyti er allt við það sama. Ég enn hangandi heima og öll að skríða saman eftir Íslandsferðina (hef að mestu sofið eftir að ég kom heim). Sá yngri er að taka þátt í hæfileikakeppni í skólanum og er kominn áfram í keppninni - þó ekkert okkar sé með á hreinu hvað það þýðir hehe. Hann spilar á fiðluna sína í keppninni og gefur keppendum úr tónlistarbekknum ekkert eftir. Þann 17. maí stendur hann svo fremstur í röðinni sem fánaberi...........hvað annað......það þýðir að hann þarf að mæta klukkan 7 um morguninn eða álíka spennandi. Skrúðganga frá skólanum og svo heilsa kónginum. Ætli kóngurinn bjóði upp á pönnsur í tilefni dagsins?

HÉR er vídeó frá tónleikum fyrir 2 árum eða svo.

Monday, April 16, 2012

Litla íbúðin

Um páskana skelltum við okkur á Slettestrand í Danmörku. Við heimsóttum heimabæinn okkar Aalborg og áttum yndislegan tíma með vinafólki frá Hövik. Það sem klikkaði heldur betur í ferðinni var myndavélin en hún varð eftir heima og því voru engar myndir teknar í sumarbústaðnum.....
Einn daginn skruppum við í Blokhus og þar féll ég kylliflöt fyrir þessum skóm sem fóru að sjálfsögðu með mér heim enda á góðum afslætti - eitt par til og það í minni stærð júhú.

Við komum heim síðla kvölds á páskadag og að morgni annars dags páska skellti ég mér í flugvél með frumburðinum til Íslands. Viðburður vikunnar var að mála og koma honum inn í litla íbúð sem við keyptum í fyrra. Jebb. Í stuttu máli má segja að sjaldan eða aldrei hef ég séð svo mikinn skít og viðbjóð saman kominn á einn stað en í þessari íbúð. En með MIKILLI vinnu á stuttum tíma tókst mér áætlunarverkið. Kom heim í fyrrakvöld dauðþreytt og yfirkeyrð og það er jafnvel understatement!

Fyrsta kvöldið var ég búin að bjóða mér í grillmat og köku hjá L vinkonu minni. Hún klikkaði ekki á fínheitunum frekar en venjulega. Elska að koma til hennar í sætu íbúðina sem er einmitt á næsta horni við  mína.

Annars lítur ungmennaíbúðin nokkurnveginn svona út - nýmáluð og hugguleg.

Stofuglugginn: Það á eftir að mála hann þar sem við erum að
láta skipta um glugga í íbúðinni á næstu 3 vikum.

Lazyboy keyptur á Bland.is - fyrsta húsgagnið inn í íbúðina.

Verkfærin sem ég fékk lánuð hjá sjálfstæðu konunni í fínu
íbúðinni á næsta horni.

Eldhúsið

Baðherbergishurðin


Gangurinn

Herbergið

Helmingur af stofu. Hinn helmingur hefur að geyma
stóran rauðan sófa og Lazyboystól.

Horft úr eldhúsinu fram á gang og á hurðina
inn í þvottahús (sem ég málaði með svartri krítarmálningu).

Eldhúsið

Neyðin kennir naktri...... Rússneska peran í stofunni
fékk perluvafning.

Æi er þetta ekki bara huggulegt?