Monday, October 15, 2012

íbúðaráp


Í gær ákváðum við hjónin að það væri kominn tími til að skoða íbúðir í hverfinu sem við viljum allra helst búa í hérna í Osló. Við vorum að skoða íbúðir sem voru til sölu og þá aðallega til að sjá hvað fólk væri að fá fyrir peninginn og hversu stórt/lítið eru eiginlega 60 - 70fm. Ekki ætluðum við að bjóða í þessar eignir heldur ákváðum við hins vegar að skrá okkur á þar til gerðan lista í hverri íbúð en þá getur maður fylgst með hvað er verið að bjóða í íbúðina og á hvað hún selst að lokum. Auðvitað er gert ráð fyrir því að það séu aðeins þeir sem hafi áhuga á að bjóða sem skrifi sig á listann......en hei við erum útlendingar! Ég er því búin að vera í fullri vinnu í dag að fylgjast með boðum í þessar þrjár íbúðir og já takk fyrir þær eru allar seldar. Við klórum okkur bara í hausnum og veltum því fyrir okkur hvort það sé eitthvað að...........sko toppstykkinu!

Fyrsta íbúðin sem við skoðuðum var 66fm - alveg ágæt nema það var í rauninni ekkert eldhús......og ísskápurinn var í dvergastærð. Verðið á íbúðinni var sett 2.590.000 NOK. Hún seldist í dag á 3.300.000 NOK.

Önnur íbúðin sem við skoðuðum var 68fm - var ábyggilega einu sinni verslun og hefur verið opnað niður í kjallara og búin til íbúð úr geymslunum. Ekkert anddyri bara vaðið beint inn í eldhús. Búið var að reyna að selja þessa íbúð áður í ágúst en þá var vatnsskaði og boðið sem kom í hana var of lágt að mati eiganda. Vatnsskaðann var búið að laga núna og á íbúðina var sett 2.590.000 NOK. Íbúðin seldist áðan á 2.500.000 NOK en það er mjög óvanalegt að íbúðir í þessu hverfi fari undir uppsettu verði. Það var nokkuð ljóst þegar við skoðuðum hana að frágangurinn var ekki í lagi.

Þriðja íbúðin sem við skoðuðum var 40fm - var einu sinni lítil verslun en núna ofsalega sæt lítil eins manns íbúð (ok kannski roooosalega ástfangið par gæti hæglega búið þarna). Á þessa íbúð var sett 1.900.000 NOK og hún fór áðan á 2.550.000 NOK.

Hérna er hægt að umreikna í íslenskar krónur (fyrir þá sem vilja).

Tuesday, October 9, 2012

með grein í rassinum

Veðrið í dag  er yndislegt, það er pínu kalt - en samt ekki, sólin skín á næstum heiðskírum himni og haustlitirnir skarta sínu fegursta. Ég var að ljúka við nýju lopapeysuna mína sem er ekki alveg hefðbundin - æi hver vill alltaf þetta hefðbundna hvort sem er?
Í tilefni dagsins skelltum við okkur í göngutúr í hverfinu, þ.e.a.s. ég og gleraugnaætan. Ég þurfti að sinna smá erindi og gleraugnaætan beið samviskusamlega bundin fyrir framan verslunina. Þegar ég kom út var gleraugnaætan eðli sínu samkvæmt afskaplega glöð og ánægð að sjá mig. Við töltum af stað og fundum lítinn garð með lítilli flöt og bekk til að sitja á. Þar sem ég stóð og var að laga heimaprjónaða vettlinginn minn hugsandi sem svo að ég ætlaði að skunda yfir á næsta kaffihús, kaupa einn vænan latte og koma til baka, setjast á bekkinn og leyfa gleraugnaætunni að þefa út í loftið...........sá hundkvikindið (lesist elsku litli sæti hundurinn minn milli samanbitinna tannanna) kött. Allt í einu - upp úr þurru missti ég vettlinginn og ólina og kvikindið var horfið inn í runna geltandi eins og vitleysingur og það var ekki séns að þessi geltandi vitleysingur ætlaði að koma af sjálfsdáðum út úr runnanum - enda kisan uppi í tré og hann á fullu að reyna að ná í kattarófétið.
Köttur uppi í tré

Þéttur runni með þyrnum og öllum pakkanum!

Skemst frá því að segja að við erum komin heim með grein í rassinum og laufblöð í hárinu og nýju peysunni, lepjandi heimalagaðan latte úr glasi. Hefði gjarnan viljað nefna það líka að gleraugnaætan gekk við hæl eins og engill á leiðinni heim.......en þá væri ég að ljúga!


Studdist við tölur úr þessari uppskrift hér.