Tuesday, July 27, 2010

Vika 29: Hnébuxur og flugnanet

Í þessari viku stytti ég buxur af þeim yngsta og gerði að hnébuxum. Mikil ánægja með þá framkvæmd - enda framkvæmd að ósk eiganda.



Þar sem við erum stundum í útilegu og þá virðast sumar flugur elska okkur meira en aðrar ákvað ég að sauma nokkur flugnanet til að hafa í fellihýsinu. Þessi hafa komið að góðum notum.

Monday, July 26, 2010

Vika 28: Peysa og pottaleppi

Í þessari viku saumaði ég mér peysukjól sem ég fór í í útilegu. Hlý og notaleg. Núna er ég búin að þvo hana og nú passar hún á barbí.... Þetta kennir manni að þvo efnið áður en maður saumar úr því. Ætla að skjótast við tækifæri og athuga hvort þær eigi ekki meira af þessu efni í nýju efnabúðinni á Frakkastíg.


Ég heklaði annan pottalepp og gaf föðursystur eiginmannsins í gjöf fyrir að bjóða okkur heim í yndislega sumarbústaðinn hennar :).

Friday, July 16, 2010

Vika 27: Jakki og heklaður pottaleppi

Í þessari viku ákvað ég að ráðast á frakka sem ég er búin að eiga inni í skáp í a.m.k. tvö ár. Ég keypti hann í Zöru á sínum tíma og aðallega vegna þess að ég var svo skotin í kraganum á frakkanum. Þar sem ég er manndvergur þá fer mér ekkert sérstaklega vel að vera í frakka og því hef ég aðeins notað hann þrisvar sinnum ehemm....
Í dag er frakkinn orðinn að jakka og ég bara nokkuð sátt. Veðrið hefur verið of gott undanfarið þannig að ég hef ekki notað hann enn - en hlakka til í haust :)

Svona leit frakkinn út


Svona lítur jakkinn út


Ég heklaði þennan líka sæta pottalepp og er alveg kominn í gírinn að hekla fleiri enda sniðug gjöf :). Myndin er nú ekki sú besta en þar sem pottaleppinn (eða er það pottaleppurinn) er fastur í fellihýsinu þá er ekki hægt að taka aðra mynd fyrr en í næstu ferð ;)

Tuesday, July 6, 2010

Vika 26: Prjónuð húfa og blómanæla

Ég prjónaði húfu eftir munstri sem ég lærði á prjónanámskeiðinu í síðustu viku. Ákvað að nota Kambgarnsafganga og er mjög sátt við útkomuna. Þessi er hlý í útilegurnar í sumar.

Munstrið heitir lænkestrikning.


Ég prjónaði síðan fremhævede masker sem kemur mjög vel út að aftan, tjah eða að framan.


Svo finnst mér húfan ekkert síðri á röngunni :)



Saumaði stóra blómanælu eins og mig hefur langað í lengi. Spurning hvort maður þori að láta sjá sig með svona ferlíki í barminum. Tjah ég get þá allavega hengt hana á einhverja töskuna :).

Monday, July 5, 2010

Vika 25: Svartur kjóll og prjónaprufur

Í þessari viku ákvað ég að breyta svörtu pilsi sem ég átti í kjól. Pilsið keypti ég í Róm fyrir nokkrum árum og það náði niður á miðja kálfa. Það er ekkert sérstaklega hentugt fyrir dverg eins og mig og því saumaði ég efri part á pilsið og nú nær hann niður á hné eins og ég vil hafa hann :).





Ég fór á námskeið í Nálinni hjá Helgu Isager prjónahönnuði. Þar lærði ég að búa til prjónaprufur ÁÐUR en ég prjóna flíkina hehe. Frú óþolinmóð (þegar kemur að svona verkefnum) var nú ekki alveg að nenna þessu - en verður að viðurkenna að þetta ER algjörlega málið.