Saturday, December 31, 2011

framtíðin - heppni2

Það er ekki að spyrja að því. Góðir hlutir gerast hægt - en þeir gerast.
Þann 3. nóvember sendi ég inn formlega kæru vegna 19 klukkustunda seinkunar á flugi frá Osló til Íslands með Iceland Express. Það er skemmst frá því að segja að ég fékk bréf frá lögfræðingi IE í fyrradag þar sem ég var beðin um að upplýsa um upphæðina sem ég greiddi fyrir að breyta miðanum mínum í umræddri ferð. Málið er að ég breytti ekki miðanum því það kostaði allt of mikinn pening - en ég vildi að þeir borguðu það á sínum tíma sem þeir neituðu. Núna fer ég fram á skaðabætur vegna þessa og eru það 400 evrur á mann samkvæmt gildandi reglugerð um svona tafir. Auðvitað geri ég ráð fyrir að fá þennan pening - ég á rétt á honum. EN aðal atriðið finnst mér samt vera að ég stóð upp fyrir sjálfa mig, lét ekki nægja að tuða og röfla, gerði eitthvað í málunum og AÐ SJÁLFSÖGÐU hafði ég rétt fyrir mér. Það var ekkert að veðrinu í Osló 1. október - það var eitthvað AÐ flugvél þessa fyrirtækis - újeah....góð tilfinning.
Margir eru að skrifa um árið sem leið og rifja upp hvað gekk á yfir árið. Ég ætla að nota þessi tímamót og skrifa hvernig fyrsta hálfa árið mitt verður.

JANÚAR 2012:
Kaupi kort í líkamsrækt.
Bókin fer í prentun.
Millymollymandy gefur bókina út.
Ég á afmæli.
Ég baka og elda.

FEBRÚAR 2012:
Ég hugsa um að fara að drífa mig í ræktina.
Íslandsferð vegna útgáfu bókar!
10 daga ferð til Sjanghæ að heimsækja Dóru Maríu vinkonu.
Ég baka og elda.

MARS 2012:
Hvaða rækt?
Finna útgefendur fyrir bókina í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Ég baka og elda.

APRÍL 2012:
Jiiih hvað allir eru sniðugir sem fara út að hlaupa....haaaa!
Íslandsferð um páskana - hver er spenntur að passa gleraugnaætuna - ha - anyone....anyone.....
Jafna sig eftir Íslandsferðina.
Ég baka og elda.

MAÍ 2012:
Kannski ætti ég að fara út að hlaupa....hmmmm!
Yngsti sonurinn verður táningur.
Ég baka og elda.

JÚNÍ 2012:
Göngu-jurtatíning-matargerðarferð með FrúGalin til Toscana á Ítalíu.
Ó meeeehhn ég hefði kannski átt að fara aðeins í ræktina.....

Og í gær lét ég loks verða að því að búa til cakepops. Auðvelt og sniðugt - er alveg að fíla þetta. Væri samt til í litað súkkulaði...gekk ekki alveg nógu vel að lita þetta hvíta sem ég var með....





Gleðilegt nýtt ár elskurnar og takk fyrir lesturinn á árinu.

Thursday, December 29, 2011

heppni

Tjah það fór þá ekki svo að við fengjum veikindalaus jól. Eiginmaðurinn búinn að vera á Íslandi síðan 2. dag jóla og frekar tómlegt í kotinu hjá mér. Sjúkravitjun lýkur þó á morgun þar sem sjúklingurinn braggast hægt en örugglega. Hlakka til að fá eiginmanninn heim á morgun.
Í morgun var ég hinsvegar að reyna að koma þessum unglingum fram úr rúminu. Það er ekki eins og ég hafi byrjað kl. 9. Við erum að tala um rétt fyrir klukkan 13. Þegar ég sá fram á það að verða hás og enn meira pirruð ákvað ég að taka málin í eigin hendur og skellti mér niður á Grünerløkka og fékk mér góðan kaffibolla á meðan ég skoðaði blöðin og mannlífið. Gekk svo þaðan niður í bæ og rakst á margt skemmtilegt. Skellti mér í Tiger og keypti smá dót til að skreyta fyrir áramótin. Rakst á dýrindis pils sem ég ætla að breyta í kjól....bara á morgun......og keypti flotta trékertastjaka á 5 krónur stykkið á skransölu. Elska þetta hverfi sem ég bý í - svoooo skemmtilegt að skoða og alltaf hægt að finna eitthvað fyrir nánast ekkert.
Keypti svartar jólakúlur og skrifaði 2011 og 2012
með hvítum tússi. Skreyting yfir borðinu um áramótin.

Bjó til þessi kort í morgun. Önnur hliðin með kveðju og hin
hliðin með ártölunum. Ætla að hengja þetta á glösin okkar.

Búin að vera lengi á leiðinni að gera svona "bordskåner"
eða hitaplatta í eldhúsið. Keypti þæfðu kúlurnar í Søstrene Grene 
fyrir nokkru og afrekaði loksins í dag að koma þessu saman.

Hvernig er hægt annað en að elska eitthvað sem kemur
í svona flottum poka.....

Þetta síííða pils kom upp úr pokanum.
Á morgun verður þetta pils orðið að kjól :D

Þessir trékertastjakar á 5 kr. stykkið - ég er að rifna úr monti.
Kannski enda ég að mála þá einhverntíma - en til að byrja með
fá þeir að vera RAUÐIR.


Ég afrekaði líka að prjóna mér vettlinga - fyrir mig - engan annan.
Þessir eru mjög háir upp sem er alger snilld þegar ég er svo
oft í slánni minni sem er ekki með ermum :D.

Saturday, December 24, 2011

Lítil systir - Gleðileg jól

Jólahátíðin er gengin í garð. Það gerði hún í gær á Þorláksmessudag eða Lille julaften eins og það heitir á norsku eða Lille juleaften eins og það heitir á dönsku. Við erum vön því að búa í útlöndum á jólunum. Okkur finnst það ekkert mál enda aðal málið að vera saman, þ.e. fjölskyldan. Auðvitað myndum við vilja hafa "alla" fjölskylduna hjá okkur - en þannig er það bara ekki. Aðal munurinn á jólahaldi erlendis og jólahaldi á Íslandi er stressleysið. Hér er löngu búið að senda allar gjafir til rétthæfra eigenda og því ekkert jólagjafastress á síðustu metrunum. Engin jólaboð og því bara tærnar upp í loft, lesa og borða konfekt eða út að viðra fjölskyldufólkið. Notalegt. Við fílum bæði. Víð fílum það að vera á fullu heima á Íslandi á síðustu metrunum og við fílum líka þessa rólegheita stemningu í útlöndunum. Við fílum það að halda jólin hvar sem er og hvenær sem er ef við fáum að vera saman.
Jólin í ár eru góð fyrir margra hluta sakir og þá helst fyrir þær sakir að þrjú jól frá árinu 2007 höfum við fjölskyldan þurft að glíma við krabbamein - svo nálægt okkur að það vekur upp sárar minningar og tár þegar þetta er skrifað. Jólin eru krabbalaus hjá okkur í ár, þó við vitum af góðu fólki sem glímir við þennan fjanda - við hugsum til þeirra með hlýhug og von um góðan bata.

Jólatréð í fyrra (sem er það sama og í ár) en okkur finnst hafa minnkað mikið....
líklega hafa allir yngriliðsmennirnir á heimilinu bara stækkað svona mikið....

Undanfarin ár hefur lítil systir verið efst á óskalistanum hjá sonum mínum. Þeir hafa hingað til ekki fengið um það að ráða - enda ekki á dagskrá hjá fjölskyldunni að fjölga sér meir. Í dag varð breyting þar á. Synir mínir hafa fengið litla systur úti í heimi í gegnum SOSbarnaþorp :D.
--------------------------------------------------------------------------
Við vonum að hátíð ljóss og friðar færi ykkur hamingju og frið.

Við vonum einnig að komandi ár verði ykkur farsælt
og allar ykkar óskir verði uppfylltar.

Þökkum fyrir allt það góða á árinu sem er að líða.
Hafið þakkir fyrir góða samfylgd á árinu.

Við erum heppin að eiga svona mikið af góðu fólki í kringum okkur.

Jólakveðjur,
Elín, Einar, Hafþór, Gunnar, Tómas og Gleraugnaætan
--------------------------------------------------------------------------

Tuesday, December 20, 2011

Kuldi

Það verður að segjast eins og er - við erum gjörsamlega að frjósa hérna á heimilinu. Alla morgna eru 14-15 gráður í íbúðinni. Þegar rafmagnsofninn (þessi eini sem við erum með í láni) er í gangi fer hitinn stundum alveg upp í 17 gráður. Ef ég stilli bakarofninn (ég reyni að baka og elda í ofninum til að fá hita) þá fer hitinn jafnvel alveg upp í 18 gráður í eldhúsinu. Múrarafíflin, sem eru ekki pólskir frekar en ég, eru sem sagt ekki enn búnir að laga pípurnar í húsinu og því má ekki kveikja upp. Í gær fengum við þau skilaboð að kannski lýkur þessu ekki fyrr en í janúar - JÁ SÆLL. Við erum að tala um að það er heill mánuður síðan við fíruðum upp í kamínunni.......brrrrr.
Er búin að henda upp jólatrénu, jebbs gervi enn og aftur - er að elska það - en kannski elska ég það ekkert meira á næsta ári, það verður bara að koma í ljós.



Annars byrjaði ég á peysu á sjálfa mig í vikunni. Eigum við eitthvað að ræða það....nei ég hélt ekki. Þetta er sko helv.... peysa þessa árs. Ég byrjaði 15 sinnum á peysunni og var jafnvel á stundum búin með hettuna þegar ég rakti allt upp aftur. Fyrstu uppfitjanirnar fattaði ég ekki að kantlykkjurnar voru ekki taldar með í uppskriftinni. Gott og vel. Svo var ég alltaf að klúðra blessuðu gatamunstrinu. Einmitt. Svo passaði prjónfestan mín ekki..... En sem sagt 15 skipti uppfitjun og prjón og núna er ég búin með hettuna og komin á búkinn. Ef ég geri villu héðan í frá þá á peysan að vera svona og ekki orð um það meir. Ég er sem sagt búin að hreiðra um mig í stofunni  með rafmagnsofninn við tærnar.....og sit meira að segja núna á sauðagæru til að halda hita á afturendanum.


Á sunnudaginn bjó ég til karamellu eftir uppskrift sem ég fann á netinu. Besta karamella sem heimilisfólkið hefur smakkað - gott ef hún nálgast ekki bara Freyjukaramellurnar mmmmm.


Rjómakaramellur:
Undirbúningur/vinnsla = ca. 1 klst.
Þurrktími = 2 klst.
500g


2,5 dl rjómi
220g (2,5 dl) sykur
180g (2,5 dl) þrúgusykur
7g (5 ml) salt


Þurrefni sett í pott og blandað vel saman. Rjómi settur út í og allt blandað vel. Hitað í 130°C - muna að hræra reglulega/stöðugt. Tekið af hellu og kælt í 90°C. Hræra reglulega/stöðugt. Sett í 13cm x 20cm form (eftir því hversu þykkar karamellurnar eiga að vera). Láta stífna í 2 tíma. Ég setti í kæli en það þarf ekki endilega.





Svo kom pakki frá laaaang bestu mömmu í öllum heiminum. Hún sendi okkur læri og hangilæri og smjör. Jebb, það hefur ekki verið til smjör síðan í nóvember hér í Noregi. Það á víst að lagast í janúar ehemm.

Bakaði svo þessar gómsætu jólabollakökur áðan - alveg sjálf eftir eigin uppfinningu. Rosalega sátt við jólabragðið sem er vottur af engiferi, kanel og negul.

Jólabollakökur



Þessi hérna hefur það mjög fínt. Liggur oft við útidyrahurðina (ekki er honum kalt). Ég held reyndar að hann sé að passa það að það fari enginn út án þess að kippa honum með ;)

Thursday, December 15, 2011

bókin og keramik

Íslandsferðin heppnaðist eins og við var að búast - mjög vel. Hitti helling af fólki og var m.a. boðið í kaffi og kökur í húsið mitt. Heimasætan E sá um að baka þessar líka ljúffengu bollakökur sem voru himneskar á bragðið. Takk enn og aftur fyrir mig.

Ég henti í eina bók sem hefur blundað í mér í eitt og hálft ár. Fékk 20 mínútna teiknikennslu rétt fyrir brottför frá Barcelona í Nóvember og er búin að sitja og teikna síðan. Fékk tilboð um útgáfu sem ég hafnaði þar sem útgáfan var í boði eftir 3 ár og samningurinn ekki þess virði að hanga og bíða eftir. Þannig að núna lítur út fyrir að ég gefi bókina út sjálf - ég er alls ekkert ósátt við það. Hérna er smá sýnishorn af því sem er í bókinni en ég lét prenta eitt vinnueintak fyrir mig á meðan ég var á Íslandi. Það auðveldar mér að fara yfir og leiðrétta.



Fór í síðasta keramiktímann í dag. Lauk við að glerja nokkur lítil jólatré og tvær stórar skálar - má ná í þetta dót í næstu viku. Kom svo heim með allar hinar skálarnar og er bara þokkalega sátt við útkomuna. Núna á ég desertskálar fyrir jólin - jibbýjeij.




Seldi fyrsta hlutinn minn á Etsy í gær. Júhú. Lítið grátt Monsterbean hefur eignast nýtt heimili í Ammríkkunni.

Það sem gerir mig mest hamingjusama þessa dagana er að við erum ÖLL saman hérna heima núna. Kippti frumburðinum með mér þegar ég fór heim frá Íslandi. Hann ætlar að vera hjá okkur fram yfir áramót - þvílík gleði og hamingja.

Thursday, December 8, 2011

8.desember

Fór í bæinn í gær og hitti elsku frænku. Ætluðum bara að fá okkur einn kaffibolla og rölta aðeins um bæinn. Enduðum báðar á að kaupa okkur flottustu vetrarskóna - og nei við keyptum ekki eins skó en við keyptum frá sama merki - made from recycled materials og er því recyclable product. Kaffibollinn sem ég fékk mér á uppáhalds kaffistaðnum mínum var með andlit í mjólkinni - újeah - það hlýtur að boða eitthvað gott og hamingjuríkt.


Skellti mér í keramik í morgunn en þar sem dótið mitt var enn í ofninum og dótið sem ég ætlaði að glerja var óbrennt - þá pakkaði ég saman og fór í síðustu jólagjafainnkaupin fyrir Íslandsferðina. Fékk þó heim með mér allra fyrstu skálarnar sem ég renndi (sko fyrir utan þær sem var stolið).....við skulum ekkert ræða það hvað þær gætu verið fallegri ehemm. EN kaffið smakkast rosa vel í þessari efstu þarna.



En í fyrramálið er það Ísland - takk fyrir. Byrjaði voðalega rólega að bóka mig í heimsókninni en finn að núna er ég alveg að fara að yfirbóka........og það getur verið stressandi. Anda inn - anda út. Stóra verkefnið hér um bil komið ofan í tösku og ekki laust við að ég sé að verða pínu kvíðin fyrir kynningunni....hmmmmm!

Tuesday, December 6, 2011

6.desember

Brrrr það er skítkalt inni. Ég sit í eldhúsinu - eða stend inni í vinnuherbergi nokkra tíma á dag og er að vinna á tölvuna. Úffff, óhætt að segja að 15 gráðurnar inni eru ekki alveg að gera sig. Þannig að í boði er að sitja í eldhúsinu og skella bakarofninum í gang til að hita eldhúsið (gerði það reyndar í morgunn áður en drengirnir komu upp að borða morgunmat). En það er náttúrulega alveg til spillis að kveikja á ofninum og sleppa því að baka.....þannig að þetta er vonlaus staða ehemm. Ég þarf nefnilega að halda áfram að vinna í tölvunni enda bara 3 dagar í Ísland. Vildi óska að þessir vinnumenn fari að ljúka pípunum í okkar stigagangi svo við getum farið að kveikja upp....

Annars skelltum við okkur til Svíþjóðar á sunnudaginn í góðum félagsskap. Versluðum m.a. smjör í baksturinn, en það er ekki til smjör í Noregi og verður ekki komið í gott horf aftur fyrr en í fyrsta lagi í byrjun janúar. Heimsóttum m.a. stærstu nammibúð sem við höfum nokkurn tíma komið í - úfff - maður missti bara lystina í sælgæti við að fara þarna inn. T fann þó helling af nammi sem er nú komið á piparkökuhúsið sem hann bakaði í síðustu viku (og mamman náði að brjóta.....áður en það var sett saman....vel gert mamma ehemm).



Fengum svo næsturgest í nótt en frænka, sem býr aðeins norðar í Noregi, er á leið til Íslands að flytja mastersverkefnið sitt við HÍ - og svo er hún að fara að ná í hundinn sinn til Íslands - ekki lítill farangur þetta ;).

Þessi ráðskona og krúttbomba er svo í heimsókn hjá okkur í viku á meðan fjölskyldan hennar er heima á Íslandi að halda upp á afmæli og skíra yngsta fjölskyldumeðliminn. Þessi dama er með einkarétt á heimilisfólkinu í sófanum og vílar ekki fyrir sér að rölta yfir tölvur og annan óþarfa til að komast leiðar sinnar hehe. Gleraugnaætan er alls óvanur svona dömum og heldur sig langt frá. Úti í göngutúrum er hún sannkölluð prinsessa á meðan herrann hleypur um eins og vitleysingur að skoða heiminn og merkja sér svæði alveg hægri vinstri.....fjör á bænum þessa dagana.

Friday, December 2, 2011

2.desember

Varðhundurinn vann vinnuna sína vel í gær......eða ekki. Á meðan ég var í keramiktíma komu vinnumennirnir að aftengja kamínuna. Varðhundurinn skottaðist í kringum þá (G gleymdi að loka hann inni þegar hann fór í skólann) og var alveg viss um að þeir væru nýju eigendurnir hans - aaaalsæll.....


Það er nú ekki mikið jólalegt yfir stofunni.....og verður svona næstu tvær vikur - jeij segir jólabarnið inni í mér - eða ekki!

Annars er stór dagur í dag. T er að fara á jólaball í skólanum frá kl. 18 - 21. Þetta er fyrsta ballið á þeirra skólaferli og þvílíkur viðburður. Foreldrarnir búnir að emailast í fleiri vikur varðandi skreytingar og ballgæslu og hvað á að bjóða upp á að borða. Ég og T fórum saman í bæinn og keyptum svartar buxur - það á sko að vera í jakkafötum og stelpurnar í kjólum og hælum. Í gærkvöld uppgötvaðist að hvíta skyrtan er of lítil.....áður vorum við búin að uppgötva að móðirin gaf svörtu spariskóna nr. 39/40 í sumar - þannig að það dæmist á frúna að skottast niður í bæ núna og reyna að finna svarta herraskó nr 39/40 (nb. þeir eru hvergi til...búin að fara í milljón búðir). Svo dæmist það á mig að búa til litlar kjötbollur til að hafa með á hlaðborðið á ballinu og frúin ætlar að sjálfsögðu að taka þátt og skreyta kl. 16 þó hún fái ekki að vera á ballinu sjálfu ;)

Thursday, December 1, 2011

1.desember

Íbúðin fer að breytast í verkstæði fyrir pólsku verkamennina í hálfan mánuð. Þeir áttu að byrja í gær en gerðu það ekki. Nú lítur út fyrir að þeir byrji á mánudaginn. Ég vona allavega að þeim seinki ekki mikið meira en fram yfir helgi. Annars verður ansi kalt hjá okkur um jólin pjúff. Það má nefnilega ekki kveikja upp á meðan þeir eru að vinna í þessum blessuðu pípum. Kamínan er eini hitarinn í íbúðinni og á meðan þessar 16-17 gráður haldast inni er ég sátt. Þá miða ég við að úti eru 5 - 10 stig þessa dagana. Svo hitnar nú alltaf aðeins þegar ég set bakarofninn í gang. Þannig að ég reikna með að baka heil ósköp á kvöldin á meðan vinnumennirnir eru á rápinu hérna.

T var svo slæmur í hælunum í gær að hann gat ekki gengið í strætó. Hann fékk því huggudag heima með tásurnar upp í loft. Ég hnoðaði í nýjan skammt af mömmukökum en fyrsti skammtur er búinn. Bakaði líka hvítu kókoskökurnar sem eru alltaf í harðri samkeppni við mömmukökurnar. T bjó til skapalón og bakaði piparkökuhús. Hann á eftir að setja það saman og svo eigum við eftir að kaupa form til að skera út piparkökur. Áttum yfir 50 kökumót sem annaðhvort liggja í bílskúrnum á Íslandi eða þeim hefur verið hent í allsvakalegri tiltekt í sumar.....úfff.





Bara kominn desember og ekkert jólalegt úti. Fyrsta skipti í dag rigning og slagveður. Jebb - það er hægt að fá lárétta rigningu í Osló - hún kom í nótt og ætlar að vera svona í dag - jeij. Ég ætla hins vegar að fórna mér og sleppa því að ganga niður í bæ í keramiktímann. Ég ætla að hendast í trikknum enda nenni ég ekki að vera blaut á meðan ég er að leira - nógu skítug verð ég nú samt. Já og það er eitt. Hvernig stendur á því að það er alveg sama hvernig ég klæði mig í svuntur og buxur og yfirhafnir í keramikinu - ég er alltaf laaang drullugust upp fyrir haus og niður á tær. Ok. þarf ekki einu sinni að vera drullugust ég er bara drullug - á meðan hinar eru bara með DROPA á svuntunum sínum. Ég þarf að fara í sturtu þegar ég kem heim - ég er með leir inni í eyrunum svo ég tali nú ekki um hárið og við skulum ekki ræða fötin.....dæs. En gaman er þetta og framleiðslan í fullum gangi. Verst að vera búin að græja allar jólagjafir (hjúkkitt segja þeir sem fá jólagjafir frá mér hehe) - annars væru það bara skálar/bollar frá frúnni í jólapakkanum. Hugsa nú samt að eitthvað af þessu endi í ruslafötunni.....þannig er það nú bara við svona tilraunamennsku. En fyrstu afurðirnar ættu að koma með heim í dag.

Það er svo margt sem mig langar að gera og svo margt sem ég ætti að vera að gera........endalaust samviskubit yfir öllu og engu. Átta dagar í Íslandsferð. Finnst ég ekkert komast áfram með það sem ég þarf að ljúka við áður en ég fer á klakann. En ég VERÐ að klára þetta - mánaða vinna, maaargir tímar að baki og margra tíma vinna eftir. I CAN DO IT.

Monday, November 28, 2011

ferðalag og þakkargjörðarhátíðin

Á föstudaginn gerðum við næstum það ómögulega. Mæli ekki með þessu - en þetta var eina lausnin sem var í boði á þessum tíma. Við hjónin fórum á fætur eins og venjulega rétt fyrir klukkan sjö á föstudag og eiginmaðurinn skellti sér í vinnuna á einn fund. Ég smurði nesti fyrir skóladrengina, eins og venjulega og undirbjó ferðina löngu. Klukkan 11 lögðum við akandi af stað til Kaupmannahafnar. Lentum í Field's í Bilka 17:45. Rétt fyrir klukkan 20 vorum við mætt á Kagså kollegíið. Fengum dýrindis heimabakaða gúmmelaði pizzu hjá hundapössunarkonunni og kæró. Klukkan 21:22 vorum við lögð af stað til baka til Osló. Lögðum bílnum í götunni okkar rétt um klukkan 4 aðfararnótt laugardags. Takk fyrir og sæll. Á gamals aldri tekur það tvo sólarhringa að jafna sig á svona ferðalagi.....þó það sé ekki nema að jafna sig á Bilkaferðinni ;). Elsku hundapössunarkona - þú ert falleg að innan sem utan - við elskum þig öll.

Þessi hérna er ekki alveg viss hvað honum finnst um þetta allt saman. Hann geltir á brunaboðann sem blikkar rauðu ljósi. Hann geltir á viftuspaðann í loftinu, þennan sem dreifir hitanum úr kamínunni fyrir okkur. Hann geltir á hundana sem hann sér úti á röltinu. Hann hrekkur við þegar strákarnir hlæja. Jebb, hann er ekki alveg að átta sig á þessu norska lífi......eftir rólyndis lífið á kollegíinu.

Skellti í einn aðventukrans í vikunni. Fékk þessi fínu spjöld með ROM123 sem ég er áskrifandi að. Og þá var búið að redda kransinum í ár.


Yngsti sonurinn skellti í lakkrískurlkökur. Búið að bíða eftir því að geta bakað þær síðan í haust. Mamman var svo hugulsöm að henda tveimur pokum af lakkrískurli í bílinn á leiðinni með hann í gám. Mömmunni finnst þetta ekkert sérstakar kökur en veit að sá yngsti ELSKAR þær og að sjálfsögðu fékk hann þá að baka þær.


Laugardagurinn fór í tveggja tíma fótboltaæfingu hjá þeim yngsta. Loksins grænt ljós á að hefja æfingar aftur þó hælarnir séu langt frá því að vera góðir. Kælikrem og klakar á hæla eftir æfingar er það sem er í boði núna. Hann var þó ánægður að mæta á æfingu og vonandi fer þetta allt að komast í rútínu hjá okkur og kannski leynist nýr vinur í einhverjum á fótboltaæfingunum - það væri óskandi. Svolítið erfitt að vera vinalaus í nýju landi.

Vorum svo boðin í flott boð á sunnudag - Thanksgivingpartý í Hövik. Glæsilegur matur og frábær félagsskapur. Frúin tók að sér að gera eftirréttinn. Skellti í pekanpæ sem endaði óvænt sem valhnetupæ þar sem pekanhnetur voru ekki til í þeim FJÓRUM matvörubúðum sem ég fór í á laugardaginn. Bragðaðist þó alveg afbragðsvel. Skellti líka í nokkrar minicupcakes og að þessu sinni varð vanillukaka fyrir valinu með bláu vanillukremi - fannst það svo vetrarlegt þó hitamælirinn hafi sýnt 11°C hér í Osló í gær.


Þessar litlu vinkonur voru nú ekkert ósáttar við þann fjórfætta - og hann var alsæll með alla athyglina.

Monday, November 21, 2011

Pizza

Helgin var pökkuð. Fengum góðan næturgest frá Berlín. Gerðist Suzukimóðir eina helgi, tók myndir og vídeó eins og góðri móður sæmir. Skrapp með næturgestinum á Frognerseteren í þokunni á laugardagskvöldið. Kíktum á Munch safnið á sunnudagsmorguninn og svo voru það tónleikar í Majorstuenkirke seinnipartinn á sunnudag. Glæsilegir tónleikar þar sem næturgesturinn stóð sig með mikilli prýði og spilaði undurfagurt lag eftir íslenskan höfund.

Á föstudaginn gerði ég mér hollustu pizzu á meðan allir strákarnir fengu sér týpíska heimapizzu. Mig langaði bara ekkert í svoleiðis. Pizzaofninn alveg að standa sig :D.

Sést ekki í botninn fyrir gúmmelaði

Pepperonipizza