Monday, September 10, 2012

holan djúpa

Í ræktinni minni (nei ég lofa - þessi bloggfærsla er ekki um ræktina) eru aðallega karlmenn á neðri hæðinni (þar sem ég æfi líka). Sumir þeirra eru steratröll og aðrir wonnabí steratröll. Ég hef EINU sinni, á undanförnum 5 vikum, hitt konu þarna niðri og hún stoppaði stutt við. Í morgun var hinsvegar hún OLGA mætt í öllu sínu veldi. Hún var þó ekki með belti um sig miðja (hefur ábyggilega gleymt því heima) en hún rústaði þarna hverri stönginni og lóðum eins og hendi væri veifað. Í laumi dáðist ég að henni, þ.e. hvað hún væri sterk þrátt fyrir augljósa eigin þyngd. Á leiðinni heim áttaði ég mig svo á því að hún var bara að taka nokkrum kílóum þyngra en ég.......huh.....Olga hvað!

Um daginn sá ég hrikalega skemmtilega atvinnuauglýsingu sem fangaði mig alveg niður í tær og til baka aftur. Stórt spennandi garnfyrirtæki hér í Osló var að auglýsa eftir fólki til að aðstoða hönnuði. Eftir að hafa lesið auglýsinguna í þaula ákvað ég að demba mér út í djúpu laugina og sækja um, enda hef ég nákvæmlega allt til brunns að bera að vera ráðin í þessa vinnu - allavega samkvæmt þeim tilmælum sem voru í auglýsingunni. Ég sendi því inn öðruvísi umsókn, 15x15cm og átti m.a. pínulitla plastmöppu fyrir prófskírteinið.


Ég var því nokkuð sjálfsörugg þegar ég fór með umsóknina á staðinn og skilaði henni á næstsíðasta degi umsóknarfrests. Ég datt hins vegar ofan í RISA stóra holu á þriðjudaginn (4 dögum eftir skilafrest) þegar garnrisinn (á facebook) hvetur fólk eindregið til að sækja um starfið og enginn frestur gefinn upp. Holan var svo djúp að ég á fullt í fangi með að reyna að komast upp úr henni....finnst ég svolítið renna til á moldarhliðunum!
Þegar ég stóð undir sturtunni áðan kviknaði hinsvegar ljós í kollinum.....alveg skínandi bjart. Þessi holutilfinning kemur á þessum tíma á hverju ári og hefur gert undanfarin 4 ár. Alltaf um mánaðarmótin ágúst/september og varir fram í miðjan október. Fyrir fjórum árum veiktist pabbi og dó langt fyrir aldur fram. Ég sakna hans óendanlega mikið. Mig vantar nefnilega aðeins að tala við hann, bara smá, ekki lengi, bara smá.
Í dag ætla ég að leyfa mér að sakna hans mikið. Ég ætla að grenja úr mér augun og fá ekka. Nýti kannski tækifærið og hlamma mér í sófann, poppa og horfi á sorglega mynd......eða kannski er tími til  kominn að pakka upp úr skókassanum og taka árlega seríuáhorfið "Sex and the city"

Á morgun kemur nýr dagur og þá kannski lýk ég við einhver hálsmen og finn út hvar ég ætla að selja þau. Hugsa að ég endi á Etsy nema aðrir skjóti að mér skemmtilegri sölustöðum.



2 comments:

Frida said...

<3

Svana said...

Knúz á þig mín kæra <3
P.s. ég held að umsóknin þín hafi ekki ratað í réttar hendur!!!