Tuesday, October 9, 2012

með grein í rassinum

Veðrið í dag  er yndislegt, það er pínu kalt - en samt ekki, sólin skín á næstum heiðskírum himni og haustlitirnir skarta sínu fegursta. Ég var að ljúka við nýju lopapeysuna mína sem er ekki alveg hefðbundin - æi hver vill alltaf þetta hefðbundna hvort sem er?
Í tilefni dagsins skelltum við okkur í göngutúr í hverfinu, þ.e.a.s. ég og gleraugnaætan. Ég þurfti að sinna smá erindi og gleraugnaætan beið samviskusamlega bundin fyrir framan verslunina. Þegar ég kom út var gleraugnaætan eðli sínu samkvæmt afskaplega glöð og ánægð að sjá mig. Við töltum af stað og fundum lítinn garð með lítilli flöt og bekk til að sitja á. Þar sem ég stóð og var að laga heimaprjónaða vettlinginn minn hugsandi sem svo að ég ætlaði að skunda yfir á næsta kaffihús, kaupa einn vænan latte og koma til baka, setjast á bekkinn og leyfa gleraugnaætunni að þefa út í loftið...........sá hundkvikindið (lesist elsku litli sæti hundurinn minn milli samanbitinna tannanna) kött. Allt í einu - upp úr þurru missti ég vettlinginn og ólina og kvikindið var horfið inn í runna geltandi eins og vitleysingur og það var ekki séns að þessi geltandi vitleysingur ætlaði að koma af sjálfsdáðum út úr runnanum - enda kisan uppi í tré og hann á fullu að reyna að ná í kattarófétið.
Köttur uppi í tré

Þéttur runni með þyrnum og öllum pakkanum!

Skemst frá því að segja að við erum komin heim með grein í rassinum og laufblöð í hárinu og nýju peysunni, lepjandi heimalagaðan latte úr glasi. Hefði gjarnan viljað nefna það líka að gleraugnaætan gekk við hæl eins og engill á leiðinni heim.......en þá væri ég að ljúga!


Studdist við tölur úr þessari uppskrift hér.


1 comment:

frugalin said...

Flott peysa! Ég er líka komin með ofnæmi fyrir lopapeysum, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Um að gera að spinna eitthvað nýtt.

Tinni biður að heilsa gleraugnaætunni og finnst þetta flott move hjá honum og hefði örugglega farið eins að sjálfur.