Wednesday, April 18, 2012

Oslo þessa dagana

Það er svolítið óraunverulegt að vera íbúi í Osló í dag. Við búum inni í miðri Osló. Nógu nálægt til að geta gengið í miðbæinn en nógu langt í burtu frá þeim stað sem hryðjuverkamaðurinn sprengdi fyrir 9 mánuðum síðan - fer allt eftir því hvernig maður hugsar það - því í raun erum við að tala um einn og sama stað, þ.e. miðbæinn.

Þegar við fluttum hingað fyrir átta og hálfum mánuði síðan var samfélagið í miklu áfalli og undir miklu álagi vegna þessa manns. Skólaárið hjá þeim yngri byrjaði á því að teikna mynd á kort og skrifa fallega kveðju til þeirra sem létust og þeirra sem stóðu eftir sárir og þjáðir. Aðal áhyggjuefni drengsins var þá hvort honum yrði einhvern tíma sleppt, þ.e. hryðjuverkamanninum.
Þessa dagana er ungmennið í prófum í menntaskólanum sínum sem liggur við sömu götu og dómssalurinn. Á hverjum degi horfir hann á vopnaða lögreglumenn/hermenn og aragrúa af fréttamönnum sem standa fyrir utan dómshúsið. Þarna verða þeir næstu 10 vikurnar. Mér finnst þetta mjög óraunverulegt og fyrsta daginn (sl. mánudag) var ég með í maganum allan morguninn þangað til drengurinn kom heim úr fyrsta prófinu. Ég var hrædd um að einhver myndi reyna að sprengja eða skjóta eða hvað veit ég í kringum dómshúsið. Þetta er óraunveruleg staða.

Að öðru leyti er allt við það sama. Ég enn hangandi heima og öll að skríða saman eftir Íslandsferðina (hef að mestu sofið eftir að ég kom heim). Sá yngri er að taka þátt í hæfileikakeppni í skólanum og er kominn áfram í keppninni - þó ekkert okkar sé með á hreinu hvað það þýðir hehe. Hann spilar á fiðluna sína í keppninni og gefur keppendum úr tónlistarbekknum ekkert eftir. Þann 17. maí stendur hann svo fremstur í röðinni sem fánaberi...........hvað annað......það þýðir að hann þarf að mæta klukkan 7 um morguninn eða álíka spennandi. Skrúðganga frá skólanum og svo heilsa kónginum. Ætli kóngurinn bjóði upp á pönnsur í tilefni dagsins?

HÉR er vídeó frá tónleikum fyrir 2 árum eða svo.

No comments: