Thursday, December 1, 2011

1.desember

Íbúðin fer að breytast í verkstæði fyrir pólsku verkamennina í hálfan mánuð. Þeir áttu að byrja í gær en gerðu það ekki. Nú lítur út fyrir að þeir byrji á mánudaginn. Ég vona allavega að þeim seinki ekki mikið meira en fram yfir helgi. Annars verður ansi kalt hjá okkur um jólin pjúff. Það má nefnilega ekki kveikja upp á meðan þeir eru að vinna í þessum blessuðu pípum. Kamínan er eini hitarinn í íbúðinni og á meðan þessar 16-17 gráður haldast inni er ég sátt. Þá miða ég við að úti eru 5 - 10 stig þessa dagana. Svo hitnar nú alltaf aðeins þegar ég set bakarofninn í gang. Þannig að ég reikna með að baka heil ósköp á kvöldin á meðan vinnumennirnir eru á rápinu hérna.

T var svo slæmur í hælunum í gær að hann gat ekki gengið í strætó. Hann fékk því huggudag heima með tásurnar upp í loft. Ég hnoðaði í nýjan skammt af mömmukökum en fyrsti skammtur er búinn. Bakaði líka hvítu kókoskökurnar sem eru alltaf í harðri samkeppni við mömmukökurnar. T bjó til skapalón og bakaði piparkökuhús. Hann á eftir að setja það saman og svo eigum við eftir að kaupa form til að skera út piparkökur. Áttum yfir 50 kökumót sem annaðhvort liggja í bílskúrnum á Íslandi eða þeim hefur verið hent í allsvakalegri tiltekt í sumar.....úfff.





Bara kominn desember og ekkert jólalegt úti. Fyrsta skipti í dag rigning og slagveður. Jebb - það er hægt að fá lárétta rigningu í Osló - hún kom í nótt og ætlar að vera svona í dag - jeij. Ég ætla hins vegar að fórna mér og sleppa því að ganga niður í bæ í keramiktímann. Ég ætla að hendast í trikknum enda nenni ég ekki að vera blaut á meðan ég er að leira - nógu skítug verð ég nú samt. Já og það er eitt. Hvernig stendur á því að það er alveg sama hvernig ég klæði mig í svuntur og buxur og yfirhafnir í keramikinu - ég er alltaf laaang drullugust upp fyrir haus og niður á tær. Ok. þarf ekki einu sinni að vera drullugust ég er bara drullug - á meðan hinar eru bara með DROPA á svuntunum sínum. Ég þarf að fara í sturtu þegar ég kem heim - ég er með leir inni í eyrunum svo ég tali nú ekki um hárið og við skulum ekki ræða fötin.....dæs. En gaman er þetta og framleiðslan í fullum gangi. Verst að vera búin að græja allar jólagjafir (hjúkkitt segja þeir sem fá jólagjafir frá mér hehe) - annars væru það bara skálar/bollar frá frúnni í jólapakkanum. Hugsa nú samt að eitthvað af þessu endi í ruslafötunni.....þannig er það nú bara við svona tilraunamennsku. En fyrstu afurðirnar ættu að koma með heim í dag.

Það er svo margt sem mig langar að gera og svo margt sem ég ætti að vera að gera........endalaust samviskubit yfir öllu og engu. Átta dagar í Íslandsferð. Finnst ég ekkert komast áfram með það sem ég þarf að ljúka við áður en ég fer á klakann. En ég VERÐ að klára þetta - mánaða vinna, maaargir tímar að baki og margra tíma vinna eftir. I CAN DO IT.

No comments: