Tuesday, December 20, 2011

Kuldi

Það verður að segjast eins og er - við erum gjörsamlega að frjósa hérna á heimilinu. Alla morgna eru 14-15 gráður í íbúðinni. Þegar rafmagnsofninn (þessi eini sem við erum með í láni) er í gangi fer hitinn stundum alveg upp í 17 gráður. Ef ég stilli bakarofninn (ég reyni að baka og elda í ofninum til að fá hita) þá fer hitinn jafnvel alveg upp í 18 gráður í eldhúsinu. Múrarafíflin, sem eru ekki pólskir frekar en ég, eru sem sagt ekki enn búnir að laga pípurnar í húsinu og því má ekki kveikja upp. Í gær fengum við þau skilaboð að kannski lýkur þessu ekki fyrr en í janúar - JÁ SÆLL. Við erum að tala um að það er heill mánuður síðan við fíruðum upp í kamínunni.......brrrrr.
Er búin að henda upp jólatrénu, jebbs gervi enn og aftur - er að elska það - en kannski elska ég það ekkert meira á næsta ári, það verður bara að koma í ljós.



Annars byrjaði ég á peysu á sjálfa mig í vikunni. Eigum við eitthvað að ræða það....nei ég hélt ekki. Þetta er sko helv.... peysa þessa árs. Ég byrjaði 15 sinnum á peysunni og var jafnvel á stundum búin með hettuna þegar ég rakti allt upp aftur. Fyrstu uppfitjanirnar fattaði ég ekki að kantlykkjurnar voru ekki taldar með í uppskriftinni. Gott og vel. Svo var ég alltaf að klúðra blessuðu gatamunstrinu. Einmitt. Svo passaði prjónfestan mín ekki..... En sem sagt 15 skipti uppfitjun og prjón og núna er ég búin með hettuna og komin á búkinn. Ef ég geri villu héðan í frá þá á peysan að vera svona og ekki orð um það meir. Ég er sem sagt búin að hreiðra um mig í stofunni  með rafmagnsofninn við tærnar.....og sit meira að segja núna á sauðagæru til að halda hita á afturendanum.


Á sunnudaginn bjó ég til karamellu eftir uppskrift sem ég fann á netinu. Besta karamella sem heimilisfólkið hefur smakkað - gott ef hún nálgast ekki bara Freyjukaramellurnar mmmmm.


Rjómakaramellur:
Undirbúningur/vinnsla = ca. 1 klst.
Þurrktími = 2 klst.
500g


2,5 dl rjómi
220g (2,5 dl) sykur
180g (2,5 dl) þrúgusykur
7g (5 ml) salt


Þurrefni sett í pott og blandað vel saman. Rjómi settur út í og allt blandað vel. Hitað í 130°C - muna að hræra reglulega/stöðugt. Tekið af hellu og kælt í 90°C. Hræra reglulega/stöðugt. Sett í 13cm x 20cm form (eftir því hversu þykkar karamellurnar eiga að vera). Láta stífna í 2 tíma. Ég setti í kæli en það þarf ekki endilega.





Svo kom pakki frá laaaang bestu mömmu í öllum heiminum. Hún sendi okkur læri og hangilæri og smjör. Jebb, það hefur ekki verið til smjör síðan í nóvember hér í Noregi. Það á víst að lagast í janúar ehemm.

Bakaði svo þessar gómsætu jólabollakökur áðan - alveg sjálf eftir eigin uppfinningu. Rosalega sátt við jólabragðið sem er vottur af engiferi, kanel og negul.

Jólabollakökur



Þessi hérna hefur það mjög fínt. Liggur oft við útidyrahurðina (ekki er honum kalt). Ég held reyndar að hann sé að passa það að það fari enginn út án þess að kippa honum með ;)

1 comment:

frugalin said...

Mér líst ekkert smá vel á allt sem þú ert að brasa við. Vona að ykkur fari að hlýna, hrikalegt að búa við svona kulda.
Knús yfir hafið.
J